Níutíu ár eru liðin frá því að Hótel Borg var tekið í notkun.

Í tilefni þess verður opið hús í dag frá klukkan 16.30 til 19.00.

Gestum býðst að skoða hótelið og heyra sögu hússins undir leiðsögn Stefáns Pálssonar, sagnfræðings.

Þá munu Sigríður Thorlacius ásamt Guðmundi Óskari og Ómari Guðjónssyni spila og syngja lögin sem ómað hafa á Hótel Borg í gegnum tíðina.

Sögufrægt hús

Hótel Borg var byggt af Jóhannesi Jósefssyni árið 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, fyrrum byggingameistara ríkisins.

Jóhannes hafði getið sér góðs orðspors erlendis sem glímukappi og var meðal annars í sirkus og barðist við skógarbirni. Hann var einn af fyrstu keppendum Íslands á Ólympíuleikunum árið 1908. Hann sneri aftur heim til Íslands sem efnaður maður og ákvað að fjárfesta í byggingu fyrsta lúxushótels á Íslandi. Eftir opnun hótelsins gekk hann yfirleitt undir nafninu Jóhannes á Borg.

Hótelið sem einkennist af fágun og glæsileika er byggt í art deco stíl og var um áratugaskeið helsta hótel Reykjavíkur og þótti með glæsilegri og nýtískulegri hótelum í Evrópu eftir að það var byggt. Á gömlum myndum má sjá hve mikið var lagt í hótelið að öllu leyti. Útflúr var á veggjum og borðbúnaður úr silfri.

Borgin laðaði að sér mikið af merkisfólki í gegnum tíðina og segir í minnispunktum Pétur Péturssonar að allt frá fyrsta degi hafði Jóhannes gestgjafi lagt á það ríka áherslu að ráða til starfa kunna og hæfa hljómlistarmenn.

Þá hafa verið haldnar þar ýmsar veislur og hátíðarhöld en Borgin var einnig helsti samkomustaður samkynheigðra í Reykjavík í aldarfjórðung.

Hótel Borg er nú í eigu Keahótela.

Hótelið er hið glæsilegasta og art deco stíllinn kemur fram jafnvel í minnstu smáatriðum.
Hótel Borg

Blökkumanni vísað á dyr

Í Verkamanninum, þann 27. maí 1930 birtist frétt um að blökkumanni hafi verið neitað um að koma inn á Borgina og honum vísað á dyr fyrir þær sakir að hann var blökkumaður. Þessi framkoma Jóhannesar vakti mikla gremju meðal gesta hótelsins og málið rataði í blöðin daginn eftir. Eftir nokkurn ágreining gekk Jóhannes inn á að láta gestina á Borg greiða atkvæði um það hvort veita ætti blökkumanninum leyfi til að dvelja á hótelinu eða ekki. Fór svo fram atkvæðagreiðsla tvo dag í röð og 338 gestanna sögðu já, en 19 nei.

Hótel Borg var þar með opnuð fyrir „siðuðum blökkumönnum".

Skjáskot
Verkamaðurinn