Dökk framtíðarsýn með dystópískum undir- og yfirtónum er miklum mun vinsælli en útópískir óskaheimar og nýja árið hefur því nú þegar oft verið sögusvið skáldaðra náttúruhamfara, blóðugra byltinga og fæðingar anti­krists auk fleiri afdrifaríkra atburða. George Jetson, fjölskyldufaðirinn í teiknimyndunum The Jetsons frá 1963, er fæddur á því herrans ári 2022. Þetta er síður en svo eina vísunin til ársins 2022 í vísindaskáldskap og þannig eiga eftirtaldar myndir allar að eiga sér stað á næstu tólf mánuðum.

Kynningarplagg spennumyndarinnar Alien Intruder frá árinu 1993.
Mynd/Skjáskot

Út fyrir endimörk alheimsins

Spennumyndin Alien Intruder frá árinu 1993 gerist úti í geimi, þar sem hópur harðsvíraðra fanga er sendur í hættulegan leiðangur að leita að týndu geimskipi. Um borð í skipinu fá fangarnir að lifa sýndarveruleika-kynlífsfantasíu eftir eigin höfði. Eins og titill myndarinnar gefur til kynna endar sagan ekki þar.

Í The Dark Side of the Moon frá 1990 eru reifaðir dularfullir atburðir um borð í geimskipi á ferð um sporbaug jarðar, en helsta verkefni áhafnarinnar er að gera við bilaðar kjarnorkuflaugar. Leikar hefjast þegar skipið bilar og flækist inn í ráðgátu sem hverfist um sjálfan Bermúda þríhyrninginn.

Náttúruhamfarir og pólitísk átök

Ethan Hawke fer fyrir leikhópnum sem fjölskyldufaðir í The Purge-þríleiknum frá 2013. Árið er 2022 og Bandaríkin laus við glæpi og atvinnuleysi komið í 1%, þökk sé einræðisflokkunum „Nýju Landsfeðrum Bandaríkjanna,“ sem náðu völdum í kjölfar efnahagshruns. Þeir hafa innleitt árlega „hreinsun,“ með allsherjar afglæpavæðingu á meðan öllum neyðarþjónustum er lokað.

Tælenska hasarmyndin 2022 Tsunami frá árinu 2009 er pólitískt hamfaradrama sem byggir lauslega á raunverulegum atburðum. Hún fjallar um flóðbylgju sem skellur á Bangok 18 árum eftir hina raunverulegu hamfaraflóðbylgju á Indlandshafi 2004, þar sem 230 þúsund manns létu létu lífið í einu mannskæðasta slysi sögunnar.

Geostorm frá árinu 2017 er Amerísk hamfaramynd með Gerard Butler í aðalhutverki. Butler leikur gervihnattarhönnuð sem reynir að bjarga heiminum frá hamfarastormi af áður óþekktum skala, sem bilanir í veðurstjórnunar-gervihnattarbúnaði hafa ollið.

Kynningarplakat hamfaramyndarinnar Geostorm með Gerard Butler í aðalhlutverki.
Mynd/Skjáskot

Mannætur og mannslíkaminn

No Escape er hasarmynd frá 2004 úr smiðju spennumyndaleikstjórans Martin Campbell. Sagan gerist í dystópískri framtíð og byggir á skáldsögunni The Penal Colony eftir Richard Herley. Lífstíðarfangi þarf að afplána dóm á eyju með samföngum sínum sem vill svo óheppilega til að eru mannætur.

Soylent Green frá árinu 1973 er lauslega byggð á vísindaskáldsögunni Make Room! Make Room! Myndin er dystópísk vísindaskáldsaga sem gerist 2022 og gerist í allsherjar skortsástandi á helstu nauðsynjum, vegna fólksfjölgunar og hamfarahlýnunar. Soylent matvælasamsteypan sætir rannsókn í tengslum við morðmál en ýmislegt fleira leynist undir yfirborðinu en aðeins eitt lík.

Charlton Heston og Leigh Taylor-Young í hlutverkum sínum í Soylent Green frá 1973.
Mynd/Getty

Indverska myndin Deham eða Líkaminn frá árinu 2001, er ein fárra Indverskra kvikmynda sem leiknar eru á ensku. Aðalpersóna myndarinnar selur úr sér líffærin í skiptum fyrir auðævi sem geta séð fyrir honum og fjölskyldu hans ævilangt, en meira hangir á spýtunni.

Tímaferðalög

Kínverska fjölskyldudramað Duckweed frá 2017 hverfist um tímaflakk kappaksturshetju frá árinu 2022 til ársins 1998. Tímaflakkið gefur söguhetjunni tækifæri til að skilja föður sinn betur, eftir stormasaman uppvöxt og deilur um árabil.

Mark Hamill, þekktastur í hlutverki sínu sem Logi Geimgengill, fer með aðalhlutverkið í Time Runner frá árinu 1993. Þann 6. október 2022 sætir jörðin innrás úr geimnum og í árásinni opnast tímagöng sem senda söguhetjuna 30 ár aftur í tímann, þar sem hetjan gerir heiðarlega tilraun til að bjarga málunum.

Varúlfar og verur

Lindsay Lohan er meðal leikara í varúlfamyndinni Among The Shadows frá árinu 2019, þar sem rannsóknarlögreglukona af varúlfaættum rannsakar morðið á frænda sínum.

Bandaríska grínmyndin Hell Baby frá 2013 segir frá ungu pari sem flytur í nýtt hús í New Orleans. Konan er kasóloétt og fljótlega kemst parið á snoðir um sögu hússins, sem er blóðug og skelfileg. Vatíkanið skerst í leikinn með sprenghlægilegum afleiðingum.

Blade Runner Black Out 2022 er anime-stuttmynd frá árinu 2017 og er ein þriggja stuttmynda sem teljast til forleiks leiknu myndarinnar Blade Runner 2049. Í myndinni hefur Tyrell samsteypan sent frá sér nýja línu af Nexus-8 androidum sem vekja mikla ólgu.