Innlent

Segjast ekki hafa komið nálægt lögheimilisflutningum

Náttúruverndarsamtökin Rjúkandi sendu frá sér yfirlýsingu í gær í kjölfar fréttaflutnings af rannsókn lögreglu á nýlegum lögheimilisskráningum fólks í Árneshreppi. Þau þvertaka fyrir það að hafa á nokkurn hátt komið nálægt lögheimilisflutningum fólks í hreppinn.

Rakel Valgeirsdóttir er einn stofnenda samtakanna Rjúkandi. Hún segir að þau hafi séð ástæðu í kjölfar fréttaflutnings til að senda frá sér yfirlýsingu. Samtökin Rjúkandi/Aðsend mynd

Náttúruverndarsamtökin Rjúkandi sendu frá sér yfirlýsingu í gær í kjölfar fréttaflutnings af rannsókn Þjóðskrár og lögreglu á nýlegum lögheimilisskráningum fólks í Árneshreppi. Samtökin voru stofnuð í fyrra og er markmið þeirra að stand vörð um náttúruna í Árneshreppi.

Sjá einnig: Íbúum fjölgað um 39 prósent

„Við sjáum ástæðu til að senda frá okkur þessa yfirlýsingu því það er búið að ýja að því að þessir fólksflutningar séu frá okkur komnir. Það er ýmislegt athugunarvert við þetta ferli. Þá hvernig Kristinn H. Gunnarsson fær upplýsingar sem virðast koma beint frá oddvita eða lögmanni, sem væntanlega hefur hvorugur ekki heimild til að dreifa slíkum upplýsingum. Þetta er hreinleg spurning um stjórnsýslu og hvort farið sé eftir stjórnsýslulögum,“ segir Rakel Valgeirsdóttir, sem situr í stjórn samtakanna, í samtali við Fréttablaðið. 

Í yfirlýsingu taka samtökin fram að þau hafi ekki hvatt neinn til fólksflutninga í Árneshrepp og segja að þeim sem það hafi gert hafi verið gerðar upp skoðanir sem ekki eru endilega þeirra. Hópurinn sé ekki einsleitur og skoðanir þeirra ekki heldur. 

Þau segja rótina að finna í færslu Kristins H. Gunnarssonar, bloggara í Bolungarvík, sem þau segja hafa tekið skýra afstöðu með fyrirhugaðri virkjun í Hvalá. „Eftir huldum leiðum hefur hann haft aðgang að bréfaskriftum milli oddvita Árneshrepps og Jóns Jónssonar lögmanns. Eins hefur hann fengið í hendurnar kjörskrá Árneshrepps mörgum dögum á undan kjörstjórn hreppsins og birt úr henni valda kafla á opinni bloggsíðu sinni. Fólkið sem Kristinn birtir persónuupplýsingar um á bloggsíðunni setur hann allt undir sama hatt og ásakar um bæði illan ásetning og lögbrot án þess þó að kanna nánar ástæður eða aðstæður umræddra aðila,“ segir í yfirlýsingu Rjúkandi.

Hið opinbera leyndarmál Árneshrepps upplýst?

„Hið opinbera leyndarmál að íbúar Árneshrepps búi ekki allir á svæðinu árið um kring hlýtur nú að vera að fullu upplýst. Um áramót voru um 50 manns með lögheimili í Árneshreppi, þar bjuggu þó aðeins um 30. Með öðrum orðum 40% íbúa hafa aðal aðsetur í öðrum sveitarfélögum. Þjóðskrá hefur enn ekki sent lögregluna að leita að því fólki,“ segir enn fremur í yfirlýsingu þeirra.

Rakel segir að fólk hafi einnig flutt lögheimili sitt utan þess tímabils sem Þjóðskrá hefur til skoðunar og veltir því fyrir sér hvers vegna miðað sé eingöngu við tímabilið 24. apríl – 5. maí þegar lögheimilisskráningarnar eru skoðaðar og hvaðan þær upplýsingar eru komnar til þjóðskrár.

„Það er sérstakt að velta því fyrir sér, án þess þó að ásaka einn né neinn, hvers vegna þetta tímabil er valið, hvers vegna sumir einstaklingar eru rannsakaðir og aðrir ekki og hvaðan Þjóðskrá fær þessar upplýsingar. Þjóðskrá hefur verið tvísaga í þessu máli og hefur ýmist sagt að þetta sé eftir ábendingum eða eftir innra eftirliti hjá þeim. Það væri áhugavert að vita hvað er rétt í því,“ segir Rakel.

Yfirlýsing Rjúkandi var birt á Facebook-síðu þeirra í gær og er hægt að lesa hana hér að neðan.

Markmið samtakanna að standa vörð um náttúru í Árneshreppi

Rjúkandi eru náttúruverndarsamtök sem stofnuð voru í fyrra og er markmið þeirra að stand vörð um náttúruna í Árneshreppi. Á heimasíðu þeirra kemur fram að í sveitarfélaginu hafi verið háværar raddir sem vilja virkja á svæðinu og að þau leggist eindregið gegn öllum slíkum hugmyndum „um nýtingu náttúrunnar með vísan í náttúruverndarlög, sérstaklega þau sem fjalla um ósnortin víðerni, fallvötn og stöðuvötn.“ Þau krefjast þess að við alla ákvörðunartöku á svæðinu verði sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi og þannig sé hægt að taka tillit til náttúru, menningar, ásamt öllum efnahags- og félagslegum þáttum sem það geta snortið.

Hér að neðan má sjá myndband frá samtökunum sem sýnir fossinn Drynjandi í Hvalá sem þau segja munu hverfa verði af fyrirhugaðri Hvalárvirkjum í Ófeigsfirði á Ströndum. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fréttir

Odd­vitinn neitar að tjá sig um meint kosninga­spjöll

Stjórnmál

Íbúum fjölgað um 39 prósent

Innlent

Eiginmaður oddvitans stingur upp á grisjun íbúa með rottueitri

Auglýsing

Nýjast

Ekki langt í að fjöldi starfa verði úreltur

Lét greipar sópa í frí­höfninni: Með átta ilm­vatns­glös í töskunni

Vara við hríð og slæmri færð

Jensína orðin elst allra

66 látin eftir sprengingu í olíu­leiðslu

Þúsundir fylgdust með jarðarför borgarstjórans

Auglýsing