Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Sigmundur Ernir Rúnarsson, aðalritstjóri fjölmiðla Torgs ehf., skrifuðu í gær undir samning um framleiðslu nýrrar sjónvarpsþáttaraðar um rannsóknir vísindamanna á vegum skólans.

Þáttunum, sem bera heitið Vísindin og við, er ætlað að varpa ljósi á þá margvíslegu rannsóknarstarfsemi sem fer fram innan Háskóla Íslands, með viðtölum og umfjöllun við fremstu fræðimenn skólans, nemendur þeirra og aðstoðarmenn, en sú vinna hefur oft og tíðum skilað sér út í atvinnulífið hér á landi, því til aukinnar hagsældar.

Umsjónarmenn þáttanna verða Þóra Katrín Kristinsdóttir efnafræðingur og Sigmundur Ernir. Saman munu þau þræða ganga háskólans í leit að því merkilegasta og fréttnæmasta sem er að gerast í vísindastarfinu innandyra og úti á víðavangi. Efni þáttanna verður einnig aðgengilegt á síðum Fréttablaðsins og fréttavefjum þess.

Framleiðslu þáttanna ber upp á 110 ára afmæli Háskóla Íslands, sem hefur verið leiðandi í vísindarannsóknum hér á landi frá upphafi síðustu aldar. Þættirnir eru væntanlegir á dagskrá Hringbrautar í byrjun næsta árs.