Háskóli Íslands fordæmir fordómafull skilaboð sem dreift hefur verið um háskólasvæðið undanfarið. Þetta kemur fram í pósti sem Jón Atli Benediktsson rektor sendi á nemendur í dag.

„Þessi skilaboð hafa verið sett upp án leyfis og vitundar Háskóla Íslands og eru í fullkominni andstöðu við stefnu hans og gildi,“ skrifar Jón Atli og bætir við að skilaboðin megi túlka sem kynþáttafordóma.

Markmiðið að vekja hörð viðbrögð

Veggspjöldin og límmiðarnir sem um ræðir innihalda skilaboð þar sem segir að það „sé í lagi að vera hvítur“. Um er að ræða herferð sem bandaríska alt-right samfélagið setti af stað í fyrra. Ætlun upphafsmanna herferðarinnar var að dreifa veggspjöldum víðs vegar um Bandaríkin til að vekja hörð viðbrögð og þannig andúð á öðrum minnihlutahópum. Washington Post fjallaði meðal annars um herferðina í fyrra.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur límmiðum frá samtökunum Norðurvígi einnig verið dreift um svæðið en þau vöktu athygli í sumar fyrir að dreifa áróðri í Hlíðunum gegn hælisleitendum. 

Meðal markmiða Norðurvígis samkvæmt vefsíðu samtakanna eru meðal annars að senda fólk sem ekki er af norðurevrópskum uppruna til heimalanda sinna, sameina öll Norðurlöndin í sjálfbært norrænt samfélag með sameiginlegum her, taka upp herskyldu og banna fjölmiðla sem vinna gegn norrænu fólki.

Virðing og jafnrétti í hávegi höfð

Jón Atli vill af þessu tilefni árétta að allir hópar skólans upplifi sig örugga á háskólasvæðinu og að allir hjálpist að við að tryggja að virðing sé borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins.

Í jafnréttisáætlun skólans sé lögð áhersla á að mismunun á grundvelli kyns, kyngervis, uppruna, litarháttar, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, heilsufars, trúarbragða, skoðana, búsetu, efnahags eða menningar sé með öllu óheimil innan skólans.

„Það er hlutverk okkar allra sem háskólaborgara að stuðla að góðu háskólasamfélagi þar sem virðing og jafnrétti eru í hávegi höfð og kynþáttafordómar fordæmdir,“ skrifar rektor að lokum.