„Ráð háskólans um málefni fatlaðs fólks, sem ég er fulltrúi í, stóð fyrir því að þessi skýrsla var gerð,“ segir Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir formaður Sjálfsbjargar. „Allur heiðurinn að vinnunni fer til TABÚ, femínískrar fötlunarhreyfingar,“ segir hún.

Að sögn Margrétar Lilju eru niðurstöður skýrslunnar sláandi. Samkvæmt niðurstöðum eru ganga þau sérúrræði sem hægt er að fá í námi í gegnum starfsráðgjöf Háskóla Íslands, gegn sínum tilgangi og eru útilokandi og aðgreinandi fyrir nemendur.

Sú hugmynd að Íslendingar séu framarlega í jafnrétti og aðgengismálum er lífsseig, en þetta er ekki veruleikinn?

„Þetta er viðtalsrannsókn og eitt viðtalið var við erlendan nema sem hefur mikið stundað nám erlendis og þar sem hún var að bera saman hvernig þjónusta við fatlaða nemendur er hér á landi miðað við aðra háskóla sem hún hefur verið í. Við fáum í rauninni falleinkunn, sem er lýsandi fyrir ástandið.“

Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir ræddi aðgengismál við HÍ í helgarblaði Fréttablaðsins í júní 2022.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í Covid var flestum nemendum háskólans komið í fjarnám með litlum fyrirvara, var fjarnámið dregið til baka?

„Um leið og Covid var búið var öll fjarkennsla dregin til baka, sem er mjög slæmt. Við í ráði háskólans um málefni fatlaðs fólks vorum búin að berjast mikið fyrir því að þetta myndi halda áfram, þar sem þetta er gríðarlega mikilvægur aðgengisþáttur, ekki bara fyrir fatlað fólk heldur líka fyrir einstæða foreldra og alla. Við öll getum orðið lasin. Þetta var tekið til baka og það er í rauninni þannig, að vilji og sérviska kennara og fyrirlesara trompar rétt nemenda til náms.“

Það er í rauninni þannig, að vilji og sérviska kennara og fyrirlesara trompar rétt nemenda til náms.

Jafnt aðgengi fatlaðra til náms er varið í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem verið er að innleiða hér á landi. „Það er vissulega langt í land innan menntaheimsins og þess vegna bind ég miklar vonir við þessa skýrslu og áframhaldandi rannsóknir, þannig að við náum framförum innan akademíunnar,“ segir Margrét Lilja.

Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir ræddi við Fréttavaktina á Hringbraut 28. febrúar 2023. Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.