Áfrýjunarnefnd háskólanema komst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands fór ekki rétt að við útreikninga á skrásetningargjaldi í skólann. Skrásetningargjald við HÍ er 75.000 krónur óháð því hvaða námsleið nemandi velur.
Tilefni kærunnar til áfrýjunarnefndar var sú að í kjölfar umfjöllunar Stúdentaráðs um skrásetningargjöld árið 2020, tók nemandi skólans undir þá afstöðu Stúdentaráðs um að skrásetningargjaldið standi ekki aðeins undir þeirri þjónustu sem nemandanum var veitt og heimilt var að rukka hann fyrir lögum samkvæmt.
Nemandinn krafði því háskólaráð Háskóla Íslands um endurgreiðslu fyrir þann hluta skrásetningargjaldsins sem hann taldi að lög heimili ekki að skólinn rukki fyrir og þá þjónustu sem nemandinn nýtti sér ekki sjálfur.
Háskólaráð hafnaði kröfu háskólanemans og rökstuddi þá afstöðu með því að sundurliðun fjárhæða kostnaðarliða sem búi að baki skrásetningargjaldinu séu áætlaðar út frá raungjöldum ársins 2015.
Niðurstaða áfrýunarnefndarinnar var sú að þessi framkvæmd uppfyllti ekki þær skyldur sem hvíla á háskólaráði samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga.
Staðfestir grun Stúdentaráðs
Í yfirlýsingu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands segir að úrskurðurinn staðfesti þann grun Stúdentaráðs að gjaldið sé ekki eingöngu skrásetningargjald í fyllstu merkingu orðsins, heldur sé það betur skilgreint sem skólagjöld.
„Skrásetningagjald í opinbera háskóla eru þjónustugjöld en þau má aðeins innheimta fyrir þá þjónustu sem hið opinbera raunverulega veitir þeim sem greiðir gjaldið og skal það gert á grundvelli skýrrar lagaheimildar,“ segir í yfirlýsingunni.
Áfrýjunarnefnd háskólanema komst að þeirri niðurstöðu að háskólaráð lagði ekki réttar forsendur til grundvallar gjaldinu og byggði þannig ekki á þeim kostnaði sem raunverulega hlýst af því að veita þjónustuna sem gjaldinu er ætlað að standa undir.
Stúdentaráð segir skrásetningargjald fela í sér álögur á stúdenta og að það dragi úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Skrásetningargjaldið er 75.000 krónur óháð því hvaða þjónustu nemandinn nýtir sér af þeim kostnaðarliðum sem að baki gjaldinu búa.
Úrskurðurinn bjóði upp á stærri umræðu
„Að mati stúdentaráðs býður úrskurðurinn upp á stærri umræðu um gjaldið, til að mynda hvernig það er áætlað, upphæð þess og hvaða þjónusta fellur undir það.“
Stúdentaráð bendir á að á Norðurlöndunum tíðkist almennt hvorki að innheimta skrásetningar- né skólagjöld.
„Þá telur Stúdentaráð að Háskóli Íslands eigi ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til viðbótar við fjárframlög ríkisins og að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð sem skyldi.“
Stúdentaráð segir stjórnvöld verða að standa við gefin loforð um stórsókn í menntun og gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi fjárveitinga til háskólastigsins til að tryggja samkeppnishæfni íslenskrar háskólamenntunar.