Á­frýjunar­nefnd há­skóla­nema komst að þeirri niður­stöðu að Há­skóli Ís­lands fór ekki rétt að við út­reikninga á skrá­setningar­gjaldi í skólann. Skrá­setningar­gjald við HÍ er 75.000 krónur óháð því hvaða náms­leið nemandi velur.

Til­efni kærunnar til á­frýjunar­nefndar var sú að í kjöl­far um­fjöllunar Stúdenta­ráðs um skrá­setningar­gjöld árið 2020, tók nemandi skólans undir þá af­stöðu Stúdenta­ráðs um að skrá­setningar­gjaldið standi ekki að­eins undir þeirri þjónustu sem nemandanum var veitt og heimilt var að rukka hann fyrir lögum sam­kvæmt.

Nemandinn krafði því há­skóla­ráð Há­skóla Ís­lands um endur­greiðslu fyrir þann hluta skrá­setningar­gjaldsins sem hann taldi að lög heimili ekki að skólinn rukki fyrir og þá þjónustu sem nemandinn nýtti sér ekki sjálfur.

Há­skóla­ráð hafnaði kröfu há­skóla­nemans og rök­studdi þá af­stöðu með því að sundur­liðun fjár­hæða kostnaðar­liða sem búi að baki skrá­setningar­gjaldinu séu á­ætlaðar út frá raun­gjöldum ársins 2015.

Niðurstaða áfrýunarnefndarinnar var sú að þessi framkvæmd uppfyllti ekki þær skyldur sem hvíla á háskólaráði samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga.

Stað­festir grun Stúdenta­ráðs

Í yfir­lýsingu frá Stúdenta­ráði Há­skóla Ís­lands segir að úr­skurðurinn stað­festi þann grun Stúdenta­ráðs að gjaldið sé ekki ein­göngu skrá­setningar­gjald í fyllstu merkingu orðsins, heldur sé það betur skil­greint sem skóla­gjöld.

„Skrá­setninga­gjald í opin­bera há­skóla eru þjónustu­gjöld en þau má að­eins inn­heimta fyrir þá þjónustu sem hið opin­bera raun­veru­lega veitir þeim sem greiðir gjaldið og skal það gert á grund­velli skýrrar laga­heimildar,“ segir í yfir­lýsingunni.

Á­frýjunar­nefnd há­skóla­nema komst að þeirri niður­stöðu að há­skóla­ráð lagði ekki réttar for­sendur til grund­vallar gjaldinu og byggði þannig ekki á þeim kostnaði sem raun­veru­lega hlýst af því að veita þjónustuna sem gjaldinu er ætlað að standa undir.

Stúdenta­ráð segir skrá­setningar­gjald fela í sér á­lögur á stúdenta og að það dragi úr jöfnu að­gengi fólks að há­skóla­menntun. Skrá­setningar­gjaldið er 75.000 krónur óháð því hvaða þjónustu nemandinn nýtir sér af þeim kostnaðar­liðum sem að baki gjaldinu búa.

Úr­skurðurinn bjóði upp á stærri um­ræðu

„Að mati stúdenta­ráðs býður úr­skurðurinn upp á stærri um­ræðu um gjaldið, til að mynda hvernig það er á­ætlað, upp­hæð þess og hvaða þjónusta fellur undir það.“

Stúdenta­ráð bendir á að á Norður­löndunum tíðkist al­mennt hvorki að inn­heimta skrá­setningar- né skóla­gjöld.

„Þá telur Stúdenta­ráð að Há­skóli Ís­lands eigi ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til við­bótar við fjár­fram­lög ríkisins og að það sé á á­byrgð stjórn­valda að sjá til þess að opin­ber há­skóla­menntun sé fjár­mögnuð sem skyldi.“

Stúdenta­ráð segir stjórn­völd verða að standa við gefin lof­orð um stór­sókn í menntun og gera nauð­syn­legar breytingar á fyrir­komu­lagi fjár­veitinga til há­skóla­stigsins til að tryggja sam­keppnis­hæfni ís­lenskrar há­skóla­menntunar.