Heilsugæslan telur sig ekki hafa farið á svig við lög við kaup á hraðprófum. Þetta segir Jónas Guðmundsson, framkvæmdastjóri sviðs fjármála og rekstrar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Félag atvinnurekenda sakar Heilsugæsluna um að hafa keypt hraðpróf til að skima fyrir kórónuveirunni fyrir hundruð milljóna króna án þess að bjóða kaupin út í samræmi við lög um opinber innkaup.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að félagið hafi sent fyrirspurnir á Heilsugæsluna vegna málsins en ekki fengið nein svör. Jónas segir að Heilsugæslan muni að sjálfsögðu svara félaginu ítarlega.

„Það svar er í vinnslu en ekki tilbúið,“ segir Jónas.

Völdu tvo framleiðendur sem Landspítalinn mælti með

Þegar fjölmennir viðburðir voru gerðir leyfilegir með hraðprófum í fyrra sendi Heilsugæslan út boð til fyrirtækja um að taka þátt í rafrænu gagnvirku innkaupakerfi vegna hraðprófa, sem er nútímaleg aðferð við útboð.

Níu fyrirtæki fengu staðfestingu þess að þau hefðu verið valin til þátttöku í innkaupakerfinu en í janúar birtust fréttir um að Heilsugæslan hefði endað á að velja hraðpróf frá tveimur framleiðendum sem Landspítalinn hefði mælt sérstaklega með.

Þurftu að laga sig að „snörpum sveiflum“

Ríkiskaup staðfesta við Fréttablaðið að ekki er hægt að sjá að hraðprófin hafi verið keypt inn í hinu gagnvirka innkaupakerfi. Vert er að nefna að til eru neyðarsjónarmið sem geta veitt stofnun undanþágu frá hinu lögbundna ferli eins og til dæmis vegna heimsfaraldurs Covid-19.

„HH telur sig ekki hafa farið á svig við lög—hins vegar hefur stofnunin þurft eins og allir aðrir að laga sig að snörpum sveiflum í veirufaraldrinum og endurskoðunum á sóttvarnareglum—viðfangsefnið hefur auðvitað verið að hafa tiltækan búnað til sýnatöku í samræmi við þarfirnar án þess að skortur yrði eða birgðir óhóflegar, sem hefur verið snúið í þeim ólgusjó sem allir þekkja,“ segir Jónas.