Berglind Karlsdóttir, deildarstjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), segir að allur gangur sé á alvarleika bótamálanna átta sem eru komin inn á borð SÍ vegna bólusetninga.

„Það hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort þetta er bótaskylt. Þau eru misalvarleg málin sem verið er að rekja til bólusetninga. Það eru einhver mál út af yfirliði. Það eru einhver mál vegna blóðtappa,“ segir Berglind. Engin mál hafa borist til SÍ vegna tímabundinnar lömunar.

Árið 2015 greiddi íslenska ríkið þremur ungum stúlkum um tíu milljónir króna hverri vegna aukaverkana í kjölfar bólusetningar við svínainflúensu. Stúlkurnar fengu drómasýki eftir bólusetninguna og var örorka þeirra metin 75 prósent, sem er hámarks örorka.

Aðspurð segir Berglind of snemmt að meta hvort einhverjir af þeim sem hafa sótt um bætur gætu verið að horfa fram á langvarandi örorku eða veikindi.

„Það eru engar rannsóknir sem við vitum um núna um að það liggi fyrir einhver langvarandi slappleiki eftir bólusetningu gegn Covid-19. Niðurstaðan í kringum drómasýkimálin er byggð á rannsóknum erlendis sem sýndi fram á þau tengsl. Það er það verkefni sem bíður Sjúkratrygginga, að meta orsakatengsl og tjón,“ segir Berglind.

Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu greiða Sjúkratryggingar bætur til þeirra sem verða fyrir líkamstjóni vegna bólusetningar. Bótaskyldan nær til þeirra sem eru bólusettir af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og nær til tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess. Tjón vegna bólusetninga á árinu 2021 þarf að nema að lágmarki 121.047 krónum svo bótaskylda geti verið fyrir hendi. Hámarksgreiðsla á þessu ári er 12,1 milljón króna.

Hæstaréttarlögmaðurinn Lára V. Júlíusdóttir telur líklegt að veikindaréttur fólks á almennum markaði nái vel utan um veikindi vegna bólusetninga og þess vegna séu bótamálin hjá SÍ svona fá.

„Veikindaréttur fólks á almennum markaði er í raun réttur óháð tilefni veikinda. Fólk byrjar á því að nýta sér veikindaréttinn frá atvinnurekanda áður en nokkuð annað gerist. Atvinnurekandi hafnar ekki þessum greiðslum, jafnvel þótt slys eða atvik kunni að vera bótaskylt annars staðar frá,“ segir Lára. „Ég geri ráð fyrir að mörg þessara tilfella sem eru að koma upp séu tímabundin tilfelli. Eitthvað sem kemur upp í tengslum við sprautuna og fólk er óvinnufært í einhverjar vikur eða mánuði, en þessi réttur nær utan um þetta að mestu leyti,“ bætir hún við.

Í framhaldi af þeim rétti getur fólk sótt í greiðslur frá sjúkrasjóði stéttarfélaganna. „Það getur verið allt frá fjórum mánuðum og upp í átta mánuði eða lengri tíma. Þannig að fólk leitar fyrst í þetta áður en kemur að því að það fari að leita eftir bótum á grundvelli laga um sjúklingatryggingu. Fólk á ekki rétt á margföldum bótum en það fær tjón sitt bætt,“ segir Lára.

Berglind býst við því að fleiri umsóknir um bætur muni berast SÍ fyrir árslok en hún segir ekki ólíklegt að fólk viti ekki af rétti sínum til að sækja bætur vegna tjóns í kjölfar bólusetningar. ■