„Þetta er mikill léttir, segir Sig­ríður Matt­hildur Ara­dóttir í sam­tali við Frétta­blaðið. Fyrr í mánuðinum sigraði hún Sjúkra­tryggingar Ís­lands eftir að hafa kært á­kvörðun þeirra um að neita henni heyrnar­að­gerð á báðum eyrum.

Sig­ríður fékk kuðungsí­græðslu á vinstra eyra árið 2005, síðan þá hefur beiðni hennar fyrir sams­konar að­gerð á hægra eyra verið hafnað nokkrum sinnum. Rök Sjúkra­trygginga hafa verið þau að ekki sé talin brýn nauð­syn fyrir að­gerðinni, þótt hún vissu­lega bæti lífs­gæði.

Sig­ríður segir niður­stöðuna vera af­gerandi og það sé skýrt að það teljist ekki nóg að heyra bara með öðru eyranu. „Þetta er gríðar­legur sigur fyrir fólk sem er að berjast við þetta,“ segir hún.

„Þegar ég fer í þessa að­gerð, þá er mér ráð­lagt að nota heyrnar­tæki á það eyra sem ekki er í­grætt til að halda við­komandi heyrnar­stöð virkri, þannig að ég ætti mögu­leika þegar ég fengi í­grætt í það eyra að heyrnar­stöðin væri enn virk,“ segir Sig­ríður.

Sig­ríður segir að árið 2010 var heyrnin í því eyra sem ekki hafði verið í­grætt orðin mjög slæm, stuðningurinn frá því eyra verið lítill og minnkað með árunum. Því hafi hún byrjað að sækja um hjá sjúkra­tryggingum að fá að fara í kuðungsí­græðslu á hægra eyra.

„Ég fékk alltaf bara „nei“ frá Sjúkra­tryggingum og áttaði mig ekki á því að það þyrfti að kæra, það virtist vera eitt­hvað sem maður ætti að gera, en ég bara áttaði mig ekki á því,“ segir Sig­ríður.

„Þarna á­kvað ég að sætta mig ekki við þetta einu sinni enn“

Árið 2018 sækir Sig­ríður aftur um en engin svör fengust við þeirri um­sókn, svo hún fékk ekki tæki­færi til að kæra þá niður­stöðu, sem Sig­ríður segir lík­legast hefði verið „nei.“

Það var síðan í desember í fyrra sem haft er sam­band við Sig­ríði og henni býðst til að fara í að­gerð, ein­hver sem átti að fara í að­gerðina hafði for­fallast. Að­gerðin var sú síðasta á fjár­hags­árinu og því búið að út­hluta fjár­magni og því líku fyrir að­gerðina.

„Við héldum að þetta væri einungis forms­at­riði [að fá sam­þykki frá Sjúkra­tryggingum] en það kom bara aftur „nei,“ segir Sig­ríður og bætir við að rök Sjúkra­trygginga hafi verið að hún hafi farið áður og þyrfti ekki annað tæki.

„Þarna á­kvað ég að sætta mig ekki við þetta einu sinni enn, heldur kæra og ég sendi kæru á­samt lög­fræðingi til Úr­skurðar­nefndar vel­ferðar­mála um miðjan mars og niður­staðan kom fyrir rúmri viku,“ segir Sig­ríður glað­lega.

Grét úr gleði

„Ég fór bara að skæla,“ segir Sigríður, aðspurð að því hver viðbrögð hennar hefðu verið við sigrinum. Hún bætir við að þetta sé auð­vitað ó­trú­legur léttir en einnig skrýtin til­finning. „Þetta er líka viður­kenning á því að það er ekki nóg að heyra bara með öðru eyranu,“ bætir hún við.

Sig­ríður segir alla sem þurfa og geta eiga rétt á því að fá þá tæki, tæki og tól sem geta hjálpað ein­stak­lingum að lifa lífinu með bestu lífs­gæðum sem til eru. „Vonandi hjálpar þetta fleirum og verður til þess að það verði svo­lítil við­horfs­breyting til þeirra sem berjast við heyrnar­skerðingu,“ segir hún.

„Þetta er dýrt, þetta eru dýr tæki og það er ekki eins og fólk geti bara labbað þarna inn og borgað fleiri hundruð þúsund fyrir svona tæki, að­stoð sem þarf, eða í­hluti eða annað.“

Bíður spennt eftir haustinu

Yfir sumar­tímann eru fáar sem engar að­gerðir fram­kvæmdar svo Sig­ríður segist bíða spennt eftir haustinu. „Það eru ekki margir sem bíða spenntir eftir haustinu, en ég geri það,“ segir Sig­ríður en hún vonast til þess að komast í að­gerð núna í haust.

Hún segir frá því hversu mikið á­fall það var að fá boð í að­gerð en Sjúkra­tryggingar hafi síðan komið í veg fyrir það. „Núna veit ég að ég má fara og það eitt er ó­trú­legur léttir. Þetta var rosa­lega mikið á­fall fyrir mig í desember af því að við töldum það vera forms­at­riði að fá sam­þykkt.“

Hún bendir á að fjár­veitingin hafi verið til staðar, út­hlutunin búin, að­gerðin komin með dag­setningu en um leið og nafnið hennar kemur upp í kerfinu þá segi Sjúkra­tryggingar „nei.“

„Þetta er rosa­lega sér­stök stofnun, það er eins og það sé gert ráð fyrir því að það sé best að byrja á því að segja „nei“ og sjá síðan hversu margir kæra,“ segir hún og bætir við að það sé vond stjórn­sýsla og að­ferðar­fræði sem þurfi að breyta.

„Ég þekki þetta ekki út frá öðrum með­ferðum á mál­efnum þeirra sem þurfa að nota þjónustu Sjúkra­trygginga en ein­hvern veginn grunar mig að þetta sé ekki eins­dæmi,“ segir Sig­ríður.