„Við ætlum að hittast þingflokkurinn á eftir, en það heyrist eitthvað í mér seinni part dagsins,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, inntur eftir svörum um atburði gærdagsins í hádegisfréttum RÚV. 

Bergþór vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en ítrekaði að hann myndi tala við fréttamenn eftir fund Miðflokksins í dag. „Þangað til ég er búinn að fara yfir þetta með hópnum okkar þá held ég þessu fyrir mig,“ sagði Bergþór. 

Flokkur fólksins mun einnig hittast í dag, en flokksmenn hafa hvatt Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson til þess að segja af sér þingmennsku. Karl og Ólafur segjast hins vegar ekki ætla að gera það. Karl Gauti sagði í samtali við RÚV að krafa stjórnarinnar um afsögn sé ósanngjörn og Ólafur sagði ekkert tilefni til afsagnar.

Hávær krafa er um að þingmennirnir sex sem náðust á Klaustursupptökunum svokölluðu segi af sér, en þess verður krafist á mótmælafundi á Austurvelli á morgun.