Andrea Sif Péturs­dóttir, fyrir­liði kvenna­lands­liðsins í hóp­fim­leikum, sleit hásin í næst­síðasta stökkinu sínu á EM í Portúgal á dögunum. Hún heyrði hásinina slitna á leiðinni inn í stökkið. Eftir þrjú EM-silfur í röð, neitaði að hún að fara upp á sjúkra­hús fyrr en að verð­launa­af­hendingu lokinni og báru lands­liðs­þjálfararnir hana upp á pallinn.

Á­horf­endur höfðu séð sænska liðið gera mis­tök á síðasta á­haldinu sem gerði það að verkum að Ís­land þurfti einungis að klára sín stökk til að vinna titilinn. Á meðan voru ís­lensku stelpurnar í æfinga­salnum á fullu í undir­búningi og á­kváðu lands­liðs­þjálfararnir að segja þeim ekki frá gengi sænska liðsins.

Eitt fall í fyrstu um­ferðinni olli hins vegar hnút í maga hjá ís­lensku stuðnings­mönnunum. Ís­lensku stelpurnar áttu þá tvær um­ferðir eftir til að klára mótið.

Á­horf­endur tóku and­köf

Í annarri um­ferð af þremur á dýnunni sleit svo lands­liðs­fyrir­liðinn, Andrea Sif Péturs­dóttir, hásin í upp­stökki á leiðinni inn í tvö­falt heljar­stökk með tvö­faldri skrúfu. Hún lenti illa, velti sér út af lendingar­dýnunni og lá kylli­flöt með and­litið í gólfinu.

Andrea segist hafa heyrt vel í hásininni slitna þegar hún keyrði fæturna ofan í gólfið til að ná upp hæðinni fyrir stökkið en hásinin hafði strítt Andreu í næstum þrjú ár.

„Ég var ekkert búin að vera að pæla í hásininni en svo heyri ég bara í upp­stökkinu svipaðan smell og kemur úr dýnunni þegar maður neglir vel ofan í hana nema sjö­falt hærra og inni í hausnum á mér,“ segir Andrea sem hugsaði á leiðinni upp: „Þetta var hásinin.“

Andrea flaug hins vegar upp í loftið og gat lítið annað gert en að keyra inn í stökkið af krafti og vona það besta. Hún lenti fyrst á hnjánum og rúllaði sér af lendingar­dýnunni. Ís­lendingar í höllinni tóku and­köf enda ljóst að nú stæði tæpt. Andrea hélt hins vegar að mögu­leikar Ís­lands væru úti.

Ég er að klúðra þessu

„Ég ligg bara í gólfinu og hugsa: „Nei, nei, nei, við hefðum getað unnið þetta og ég er að klúðra þessu. Loksins þegar við vorum að fara að vinna þetta þá þurfti ég að gera eitt­hvað svona. Lenda á hnjánum, þannig ég fæ ekki einu sinni stökkið gilt,“ segir Andrea. „Ég lá bara með and­litið í gólfinu og hugsaði: „Þú ert að grínast í mér.“

Það er bara eitt­hvað verið að þreifa á mér og svo kemur ein­kunn Ís­lands upp á skjáinn,“ segir Andrea. „Ég byrjaði bara að öskra og hoppa á einum fæti til stelpnanna og Ás­dís elti mig bara,“ segir Andrea og á þar við sjúkra­þjálfara liðsins.

„Eftir það var ég tekin inn í sjúkra­her­bergið,“ segir Andrea. „Þar er á­kveðið að ég þurfi að fara upp á spítala.

Ég segi bara: Af­sakið en ég er ekki að fara að missa af þjóð­söngnum. Ekki séns í hel­víti. Ég er búin að bíða eftir því í ég veit ekki hvað mörg ár. Ég fer þarna frekar með hangandi fót,“ segir Andrea sem hefur þurft að hlusta á sænska þjóð­sönginn þrjú Evrópu­meistara­mót í röð.

Sjúkra­þjálfarar og læknar á svæðinu sáu að henni var al­vara og fór svo að lands­liðs­þjálfarar kvenna­lands­liðsins, Þor­geir Ívars­son og Daði Snær Páls­son, voru sendir til að halda á henni upp á verð­launa­pallinn.

„Þor­geir og Daði héldu á mér til skiptis og svo studdi ég mig við stelpurnar. Ég var ekkert mjög verkjuð þar. Ég var í sjöunda himni. Svo fór ég niður af pallinum, við tókum mynd og svo fór ég upp á spítala,“ segir Andrea.