„Hún var slök og spennulaus allan tímann. Ég held meira að segja að henni hafi ekkert fundist þetta merkileg upplifun,“ segir Katharina Breslauer, sem á hestinn Hettu frá Skeggjastöðum.

Þær fóru ásamt Kolbrúnu Grétarsdóttur í 12 kílómetra göngutúr með Hettu upp að eldsumbrotunum í Fagradal að taka myndir, meðal annars fyrir Kidka, framleiðslufyrirtæki fyrir prjónavörur á Hvammstanga sem framleiðir sína eigin vörulínu úr íslenskri ull. Hetta er einmitt í yfirbreiðslu frá Kidka á myndinni.

Allir svo jákvæðir

Katharina segir að hugmyndin að fara með Hettu upp að eldgosinu hafi kviknað snemma en það þurfti margt að ganga upp til að hægt væri að feta leiðina. Gasmengun mátti ekki vera og veðrið í lagi svo fátt eitt sé nefnt. Hún fékk leyfi frá Almannavörnum og lögreglunni og ber björgunarsveitarfólkinu góða sögu:

„Það var svo skemmtilegt hvað allir tóku vel á móti okkur, bæði laganna verðir og björgunarsveitarfólk sem við hittum. Allir eitthvað svo jákvæðir en samt með öryggið í huga. Það fannst mér algjörlega frábært.“

„Ég held að Hetta hafi ekkert skilið í okkur mannfólkinu hvað okkur fannst eldgosið fallegt.“

Katharina var sjálf búin að labba leiðina að gosstöðvunum til að athuga hvort þetta væri gerlegt. Og þegar opnaðist gluggi á miðvikudag var haldið af stað í rólegheitum.

„Við vorum búin að fresta þessu nokkrum sinnum og við fórum þetta rólega. Ef við þyrftum að snúa við þá væri það þannig. Það var engin miskunn með það. Þá yrði þetta í versta falli góður göngutúr.“

Tók varla eftir gosinu

Hún bendir á að hestar séu með stærri lungu en hundar og andi mun ofar en þeir og því var ekki mikil hætta á ferðum. „Það er lykilatriði að vera með rólegan og traustan hest sem maður treystir. Það er ekki hægt að fara ríðandi frá bílastæðinu og að gosstöðvunum. Við gerðum þetta bara rólega og Hetta veit alveg hvað hún vill. Hún er næm á það að láta vita hvað hún vill gera og hvað ekki og á svona stað þarf maður að hlusta á hestinn,“ segir Katharina.

Hún segir að sér hafi fundist gosið mun fallegra en Hettu, sem varla tók eftir því.

„Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og ég held að þetta hafi heppnast svona vel vegna góðs undirbúnings. En ég held að Hetta hafi ekkert skilið í okkur mannfólkinu hvað okkur fannst eldgosið fallegt,“ segir Katharina og hlær.