Ester Ingvarsdóttir sálfræðingur segir mikilvægt að ræða við börn sín af yfirvegun og forðast ekki umræðuefnið eða beita hræðsluáróðri ef barn upplifir að átrúnaðargoð hafi brugðist ímyndinni sem það hafði. Best er að halda sig við staðreyndir og muna að við höfum ekki svör við öllu.

Að sögn Esterar eiga börn það til að hetjugera einstaklinga og það getur kallað fram ýmsar tilfinningar, þar á meðal sorg, ef börnum finnst hetjan þeirra á einhvern hátt hafa brugðist.

Börn geta fengið misvísandi upplýsingar og átt erfitt með að vita hverju þau geta treyst þegar svona umræða fer í gang.

„Við þurfum að passa okkur hvað við segjum og halda ró okkar,“ segir Ester. Farsælast sé að foreldrar nálgist umræðuna á hlutlausan hátt og byrji á því að spyrja börnin opinna spurninga til að komast að því hvað þau vita nú þegar og miða framhaldið svolítið út frá því og þroska barnsins.

Ester Ingvarsdóttir, sálfræðingur.
Fréttablaðið/Eyþór

„Börnin vita oft mun meira en foreldrarnir gera sér grein fyrir og við þurfum að leyfa þeim að líða eins og þeim líður, en sýna að við erum til staðar.“

„Hetjur barna birtast í lífi okkar í ýmsum myndum,“ segir Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Viðar segir að útskýra þurfi fyrir börnum að þær séu ekki heilagar heldur séu þær venjulegt fólk með gríðarlega hæfileika á afmörkuðu sviði eða þráhyggju en eigi einnig við sín vandamál, kvíða eða óöryggi að etja líkt og aðrir.

„Þetta er bara ákveðið yfirborð sem er búið til fyrir okkur,“ segir Viðar sem kveður börnin geta dregið mikilvægan lærdóm af umræðunni, ekki síst þau sem skorti sjálfstraust. Enginn sé fullkominn, ekki heldur þau sem hafa staðið sig vel og náð árangri.

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Fréttablaðið/Stefán