„Það eru fleiri bandarískir hermenn í viðbragðsstöðu í Washington núna en eru í Írak. Þetta er mjög skrýtið,“ segir Bryndís Bjarnadóttir, meistaranemi í öryggisfræðum við Georgetown-háskóla í Washington D.C. í Bandaríkjunum.
Yfirvöld við öllu búin
Segja má að augu alheimsins um þessar mundir beinist að höfuðborg Bandaríkjanna, ekki síst í ljósi árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar næstkomandi en einnig vegna innsetningar Joe Biden og Kamölu Harris í embætti forseta og varaforseta á miðvikudag.
Bandarísk yfirvöld eru við öllu búin en búist er við því að allt að 20 þúsund hermenn verði í borginni næstu daga.
Bryndís segir að það sé hálf skrýtið að vera íbúi í borginni um þessar mundir, en hún hefur verið búsett þar í um eitt og hálft ár. Hún var ekki stödd í borginni þegar allt ætlaði um koll að keyra þann 6. janúar þar sem hún var enn í jólafríi hjá bróður sínum sem búsettur er í Iowa.
„Maður getur eiginlega ekki farið neitt nema sjá hertrukka á hverju götuhorni og það eru til dæmis öryggisverðir núna í hverri einustu verslun,“ segir hún en þannig var það ekki áður en hún fór í jólafrí. Hún hefur stundað æfingar ásamt vinum í tröppum skammt frá Lincoln-minnismerkinu en getur það ekki þessa dagana þar sem búið er að loka svæðinu vegna innsetningarinnar á miðvikudag.
Sér þinghúsið út um gluggann
Bryndís er búsett steinsnar frá þinghúsinu í Washington þar sem árásin var gerð þann 6. janúar. „Ég bý inni í Virginíu en sé þinghúsið út um svefnherbergisgluggann minn,“ segir hún og nefnir að hún sé til dæmis mun fljótari að fara inn á svæðið en margir þeirra sem búa í úthverfum D.C.
Stuðningsmenn Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, voru fjölmennir í Washington á dögunum en Bryndís kveðst ekkert hafa orðið vör við þá nú þegar aðeins þrír dagar eru þar til hann lætur formlega af embætti. Það eina sem fyrir augu ber séu hermenn og aftur hermenn.
Götur í borginni eru margar hverjar lokaðar og hafa yfirvöld komið upp steinsteyptum vegatálmum víða. Umferðin í borginni gengur því býsna hægt um þessar mundir, að sögn Bryndísar. Aðspurð hvort íbúar búist ekki almennt við því að embættisskiptin fari fram með friðsamlegum hætti á miðvikudag segir Bryndís að yfirvöld séu að minnsta kosti að gera allt sem þau geta til að allt gangi vel.
Raskið er þó töluvert og nefnir Bryndís að hún eigi vinkonur í D.C. sem hafa talað nokkuð um þau óþægindi sem þessar ráðstafanir hafa á daglegt líf íbúa. Á sumum svæðum er ekki hægt að fara út í búð án þess að sýna skilríki um að þú megir vera á svæðinu.
„Þær eru ekki beint hræddar heldur eru þetta meira óþægindi sem fylgja þessu, að mæta hermönnum með stór skotvopn á sér. Tilfinningin er kannski ekki beint þægileg.“
Vill upplifa borgina betur eftir COVID
Ekki mörgum mánuðum eftir að Bryndís flutti til Washington fór COVID-19-faraldurinn að láta til sín taka. Hún segir að staðan í Washington hafi verið nokkuð góð í faraldrinum, að minnsta kosti ef miðað er við önnur svæði, og strangar reglur verið í gildi lengst af. „Það er grímuskylda alls staðar og það má ekki setjast inn á veitingastaði svo dæmi séu tekin.“
Bryndís lýkur námi sínu í maí næstkomandi og segist hún vonast til þess að fá starf við hæfi í Washington þegar hún útskrifast. Það yrði að minnsta kosti gaman að upplifa borgina með öðrum hætti en nú þegar allt litast af COVID-19-faraldrinum og margt lokað, til dæmis söfn borgarinnar.