„Það eru fleiri banda­rískir her­menn í við­bragðs­stöðu í Was­hington núna en eru í Írak. Þetta er mjög skrýtið,“ segir Bryn­dís Bjarna­dóttir, meistara­nemi í öryggis­fræðum við Geor­get­own-há­skóla í Was­hington D.C. í Banda­ríkjunum.

Yfirvöld við öllu búin

Segja má að augu al­heimsins um þessar mundir beinist að höfuð­borg Banda­ríkjanna, ekki síst í ljósi á­rásarinnar á þing­húsið þann 6. janúar næst­komandi en einnig vegna inn­setningar Joe Biden og Kamölu Har­ris í em­bætti for­seta og vara­for­seta á mið­viku­dag.

Banda­rísk yfir­völd eru við öllu búin en búist er við því að allt að 20 þúsund her­menn verði í borginni næstu daga.

Bryn­dís segir að það sé hálf skrýtið að vera íbúi í borginni um þessar mundir, en hún hefur verið bú­sett þar í um eitt og hálft ár. Hún var ekki stödd í borginni þegar allt ætlaði um koll að keyra þann 6. janúar þar sem hún var enn í jóla­fríi hjá bróður sínum sem bú­settur er í Iowa.

„Maður getur eigin­lega ekki farið neitt nema sjá her­trukka á hverju götu­horni og það eru til dæmis öryggis­verðir núna í hverri einustu verslun,“ segir hún en þannig var það ekki áður en hún fór í jóla­frí. Hún hefur stundað æfingar á­samt vinum í tröppum skammt frá Lincoln-minnis­merkinu en getur það ekki þessa dagana þar sem búið er að loka svæðinu vegna inn­setningarinnar á mið­viku­dag.

Sér þinghúsið út um gluggann

Bryn­dís er bú­sett stein­snar frá þing­húsinu í Was­hington þar sem á­rásin var gerð þann 6. janúar. „Ég bý inni í Virginíu en sé þing­húsið út um svefn­her­bergis­gluggann minn,“ segir hún og nefnir að hún sé til dæmis mun fljótari að fara inn á svæðið en margir þeirra sem búa í út­hverfum D.C.

Stuðnings­menn Donalds Trump, frá­farandi Banda­ríkja­for­seta, voru fjöl­mennir í Was­hington á dögunum en Bryn­dís kveðst ekkert hafa orðið vör við þá nú þegar að­eins þrír dagar eru þar til hann lætur form­lega af em­bætti. Það eina sem fyrir augu ber séu her­menn og aftur her­menn.

Götur í borginni eru margar hverjar lokaðar og hafa yfir­völd komið upp stein­steyptum vega­tálmum víða. Um­ferðin í borginni gengur því býsna hægt um þessar mundir, að sögn Bryn­dísar. Að­spurð hvort í­búar búist ekki al­mennt við því að em­bættis­skiptin fari fram með frið­sam­legum hætti á mið­viku­dag segir Bryn­dís að yfir­völd séu að minnsta kosti að gera allt sem þau geta til að allt gangi vel.

Raskið er þó tölu­vert og nefnir Bryn­dís að hún eigi vin­konur í D.C. sem hafa talað nokkuð um þau ó­þægindi sem þessar ráð­stafanir hafa á dag­legt líf íbúa. Á sumum svæðum er ekki hægt að fara út í búð án þess að sýna skil­ríki um að þú megir vera á svæðinu.

„Þær eru ekki beint hræddar heldur eru þetta meira ó­þægindi sem fylgja þessu, að mæta her­mönnum með stór skot­vopn á sér. Til­finningin er kannski ekki beint þægi­leg.“

Vill upplifa borgina betur eftir COVID

Ekki mörgum mánuðum eftir að Bryn­dís flutti til Was­hington fór CO­VID-19-far­aldurinn að láta til sín taka. Hún segir að staðan í Was­hington hafi verið nokkuð góð í far­aldrinum, að minnsta kosti ef miðað er við önnur svæði, og strangar reglur verið í gildi lengst af. „Það er grímu­skylda alls staðar og það má ekki setjast inn á veitinga­staði svo dæmi séu tekin.“

Bryn­dís lýkur námi sínu í maí næst­komandi og segist hún vonast til þess að fá starf við hæfi í Was­hington þegar hún út­skrifast. Það yrði að minnsta kosti gaman að upp­lifa borgina með öðrum hætti en nú þegar allt litast af CO­VID-19-far­aldrinum og margt lokað, til dæmis söfn borgarinnar.