Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra telur að fyrirhuguð herþotusending Pólverja til Úkraínu muni skapa pressu á aðrar þjóðir sendi einnig þotur. Hún segir að tíminn muni leiða í ljós hvort önnur ríki fylgi fordæmi Pólverja.

Að sögn Þórdísar Kolbrúnar eru pólsku þoturnar allt annars eðlis en þær sem kæmu frá Bandaríkjamönnum ef þeir myndu senda orrustuþotur, sem þeir hyggjast ekki gera. „Áhrif á gang stríðsins, varnir Úkraínumanna, yrðu meiri með öðrum tegundum en þær sem Pólland er að senda.“

Greint hefur verið frá því að Pólverjar verði fyrstir þjóða til að senda herþotur til Úkraínu en þeir áætla að afhenda fyrstu þoturnar á næstu dögum. Fleiri þjóðir hafa íhugað að gera slíkt hið sama.

Vélarnar sem Pólverjar ætla að senda eru gamlar herþotur frá tímum Sovétríkjanna sem úkraínskir hermenn hafa hlotið þjálfun á.

„Þróunin hefur auðvitað verið sú allt frá upphafi stríðsins að Úkraínumenn biðja um tegundir af vopnum og það fer alla jafna frekar hægt af stað og er síðan samþykkt og ég hef ekki séð annað en að Úkraínumenn hafi staðið undir því trausti. Í þessu felst oft mikil þjálfun og þeir hafa sinnt því mjög hratt og vel. Þeir hafa staðið undir því trausti sem þeim er sýnt með þessum flutningum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra bætir við að Úkraínumenn hafi þrýst mjög á að fá orrustuþotur sendar og að það geri þeir ekki að ástæðulausu. „Þannig að þetta mun hafa einhver áhrif,“ segir hún.

Þórdís Kolbrún er sjálf nýkomin frá Úkraínu ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Segir hún meðal annars að rætt hafi verið um stuðning Íslands við Úkraínu. Í ferðinni hafi gefist tækifæri til að spyrja hvernig sá stuðningur hefur gengið eftir þar sem hann komi úr ýmsum áttum.

„Svörin voru að við höfum verið að setja fjármuni heilt yfir á rétta staði. Líka áður en við tökum þær ákvarðanir þá erum við í sambandi við Úkraínumenn alla jafna. Þannig að það var gott að finna það að þessi stuðningur er að skila sér og er almennt skilvirkur og skilar sér hratt, sem skiptir máli fyrir þau,“ segir Þórdís Kolbrún.