Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra greindi fréttamönnum frá nýjum sóttvarnaaðgerðum fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu en þar lauk fyrir skömmu ríkisstjórnarfundi sem hófst klukkan hálftíu.
Þar var fundað um minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir vegna fjölda Covid-smita í samfélaginu. Í gær greindust 286 smit innanlands og er það annan daginn í röð sem metfjöldi smita greinist en þau voru 220 í fyrradag.
Nýju reglurnar taka gildi á miðnætti og gilda í þrjár vikur. Willum Þór segir nauðsynlegt nú að grípa til hertra aðgerða og óvissan sé mikil. Fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 20 en leyfilegt er að halda 200 manna atburði með hraðprófum.
Tveggja metra reglan verður tekin upp aftur. Sund- og líkamsræktarstöðvar mega einungis taka við helmingi af leyfilegum fjölda gesta.
Sóttvarnalæknir lagði til að seinka skólastarfi eftir jólafrí, til 10. janúar. Willum segir ákveðið að gera það ekki.
Reglur á landamærunum eru óbreyttar til 15. janúar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að samstaða ríki enn í þjóðfélaginu um aðgerðir vegna Covid. Þreyta sé komin í marga, fjöldi sé í sóttkví og einangrun en að hennar mati ríki enn mikið traust til sóttvarnayfirvalda og þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til. Stjórnvöld hafi lagt áherslu á gagnsæi um ákvarðanir sína sem skilað hafa árangri.
Hún sagði þó að skiptar skoðanir hafi verið um ráðstafanirnar innan ríkisstjórnarinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.
