Norsk stjórnvöld boðuðu til blaðamannafundar í kvöldþar sem hertar sóttvarnaaðgerðir í landinu voru kynntar.

Kórónuveirumitum hefur fjölgað ört í landinu síðustu vikur en ákveðið var að herða aðgerðir til að koma í veg fyrir enn frekari útbreiðslu veirunnar.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs sagði á blaðamannafundinum í kvöld að útlit væri fyrir að ný smitbylgja væri á leiðinni en nýja afbrigðið af COVID-19 hefur greinst í Noregi.

„Mig langaði til að óska ykkur gleðilegs nýs árs en árið hefur því miður ekki byrjað eins og við vonuðum," sagði Solberg.

Frá og með morgundeginum, 4.janúar taka gildi nýjar sóttvarnaaðgerðir í Noregi og gilda þær til og með 18. janúar næstkomandi. Reglurnar kveða meðal annars á um:

  • Hámark fimm manns mega koma saman á einkasamkomum fyrir utan eigið heimili. Ef fleiri en fimm búa á sama heimili mega þau koma saman.
  • Hámark tíu manns mega koma saman á íþrótta- og menningaviðburðum, í kirkju og öðrum samkomum þar sem áhorfendur sitja í föstum sætum. 50 mega þó koma saman við jarðafarir líkt og er í gildi hérlendis.
  • Veitingastaðir mega ekki selja og afgreiða áfengi.

Þá er mælt með að fólk fái ekki gesti í heimsókn til sín. Undanskilin þeirri reglu er fólk sem þarf á heimaþjónustu að halda. Þeir sem búa einir mega einnig heimsækja tvö önnur heimili. Þá mega börn í leikskólum og grunnskólum fá heimsóknir frá öðrum börnum í sama árgangi.

Allt skipulagt tómstundar- og íþróttastarf, sem og menningarviðburðir verður frestað þar til eftir 18. janúar.

Framhaldsskólar og háskólar verða í fjarkennslu á tímabilinu og öllum er ráðlagt að vinna heiman frá sér ef hægt er.

Norðmenn náðu ágætum tökum á faraldrinum í fyrstu bylgju faraldursins og lítið var um smit þar í sumar. Smitum fór þó ört fjölgandi í október en metfjöldi smita greindist í landinu þann 30. desember síðastliðinn þegar 732 greindust með veiruna. Alls hafa 50.523 smitast af COVID-19 í Noregi og 436 látið lífið.