Dæmi eru um að húðbreytingar sem geta tengst alvarlegum sjúkdómum séu meðhöndlaðar í fegrunarskyni af aðilum sem ekki hafa til þess viðeigandi þekkingu og þjálfun. Geislavörnum og embætti landlæknis hafa borist ábendingar og kvartanir er lúta að rangri greiningu og meðhöndlun húðbreytinga án aðkomu læknis með viðeigandi sérmenntun. Einnig hafa Geislavörnum og embætti landlæknis borist kvartanir vegna alvarlegra bruna á húð við fjarlægingu húðflúrs með öflugum leysum.
Heilbrigðisráðherra hefur nú sett nýja reglugerð um bæði innflutning og notkun svonefndra leysa, leysibenda og IPL-tækja sem meðal annars er beitt í fegrunaraðgerðum.
Skylda aðkomu lækna
Skýrar kröfur eru nú gerðar um menntun þeirra sem heimilt er að nota þessi tæki, meðal annars vegna meðferða í fegrunarskyni. Skýrt er kveðið á um aðkomu og ábyrgð læknis, hvort sem um er að ræða læknisfræðilega notkun þessara tækja eða notkun þeirra í fegrunarskyni, segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.
Markmiðið er að draga úr líkum á að einstaklingar sem sækja í fegrunarmeðferðir þar sem notaðir eru öflugir leysar, öflugir leysibendar og IPL-tæki verði fyrir skaða. Í nýju reglugerðinni kveðið á um að notkun öflugra leysa, öflugra leysibenda og IPL-tækja í fegrunarskyni skuli vera á ábyrgð læknis með viðeigandi sérmenntun. Hann skal starfa á þeim stað þar sem notkunin fer fram, koma með beinum hætti að greiningu þess sem á að meðhöndla og hafa möguleika á að grípa án tafar til viðeigandi viðbragða við óhöppum eða fylgikvillum.