Frá 2012 hefur VÍS gert kannanir á stöðu dekkja á tjónabílum að vetrarlagi. Mjög jákvætt er að sjá þróunina sem hefur orðið frá þeim tíma sem byrjað var að gera kannanirnar, sér í lagi eftir að reglur um mynstur á hjólbörðum yfir vetrartíma voru hertar haustið 2014. Aldrei hefur hlutfall þeirra sem eru með næga mynstursdýpt, þ.e. 3 mm eða meira, verið eins hátt og í könnuninni núna eða 92%. Í könnuninni árið á undan var hlutfallið 64% og árið 2015 var það 35%. Greinilegt er að auknar kröfur í reglugerð um mynstursdýpt skilar sér tvímælalaust út í umferðina í auknu öryggi.

Langstærsti hluti ökutækjanna 100 sem skoðuð voru voru með sömu tegund dekkja undir bílnum eða 92%. Flestir bílanna voru á negldum dekkjum eða 42%. Heilsárs og vetrardekk voru með sama hlutfall eða 28% hvort um sig og einungis 2% var á sumardekkjum og hefur það hlutfall aldrei verið eins lágt en var hæst 13% árið 2013. Sá þáttur sem kom verst út var loftþrýstingur dekkjanna. Hægt var að kanna hann hjá 70% bílanna og voru einungis 57% þeirra með réttan þrýsting. Hin 43% voru langflest með mjög mismunandi loftþrýsting á milli dekkja.