Heil­brigðis­ráð­herra hefur sam­þykkt hertar að­gerðir á landa­mærunum vegna nýs af­brigðis kórónu­veirunnar, Ó­míkrón-af­brigðisins. Reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra tekur gildi frá og með sunnu­degi 28. nóvember.

Í minnis­blaði Þór­ólfs Guðna­sonar, sótt­varna­læknis, kemur fram að talin sé hætta á því að Ó­míkron sé meira smitandi en Delta-af­brigði veirunnar, valdi hugsan­lega al­var­legri sýkingu og að bólu­efni sem gefin hafa verið veiti ekki jafn­mikla vörn fyrir þessu stökk­breytta af­brigði veirunnar og öðrum þekktum af­brigðum.

Í til­kynningu frá heil­brigðis­ráðu­neytinu kemur fram að öllum sem koma til landsins og hafa dvalið meira en sólar­hring síðast­liðna 14 daga á skil­greindum há­á­hættu­svæðum verður skylt að fara í PCR-próf við komuna til landsins og síðan í sótt­kví sem lýkur með öðru PCR prófi fimm dögum síðar.

Þetta gildir um alla sem dvalið hafa á há­á­hættu­svæði, hvort sem þeir eru bólu­settir eða ekki eða með sögu um fyrri sýkingu af Co­vid-19. Þessir ein­staklingar þurfa jafn­framt að fram­vísa nei­kvæðu Co­vid-prófi við byrðingu er­lendis fyrir komuna til Ís­lands (þó að undan­skildum þeim sem eru með tengsl við Ís­land). Enn fremur ber þeim að fylla út raf­rænt for­skráningar­eyðu­blað þar sem m.a. kemur fram hvar þau hyggjast dvelja í sótt­kví á Ís­landi. Börn fædd 2016 og síðar eru undan­skilin þessum reglum.

Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, stað­festi reglu­gerð í dag í sam­ræmi við til­lögur sótt­varna­læknis en hann sendi henni nýtt minnis­blað í dag. Ráð­leggingar sótt­varna­læknis eru í sam­ræmi við til­mæli frá ráð­herra­ráði Evrópu­sam­bandsins en hann fundaði með þeim seinni partinn í gær. Ráð­herra­ráð Evrópu­sam­bandsins hefur hvatt aðildar­þjóðir til að bregðast við með framan­greindum að­gerðum meðan verið er að kanna betur eigin­leika veirunnar.

Til há­á­hættu­svæða teljast Botsvana, Esvatíní, Lesótó, Mó­sambík, Namibía, Simba­b­ve og Suður-Afríka.

Fyrr í dag var greint frá því að sótt­varna­læknir hafi upp­færð ferða­ráð­leggingar og ráð­lagi fólki frá því að ferðast til þessara landa.

Nánar um reglurnar hér á vef heil­brigðis­ráðu­neytisins.