Frá og með deginum í dag mega einungis 500 manns koma saman en hertar sóttvarnareglur tóku gildi á miðnætti. Einnig er í gildi eins metra regla, en á sitjandi viðburðum er heimild til að víkja frá henni á meðan setið er, svo lengi sem allir beri grímu.

Veitingastöðum, þar sem heimilaðar eru vínveitingar, er nú heimilt að hafa opið til klukkan ellefu á kvöldin og rýma skal staði fyrir miðnætti. Einnig skal nú skrá alla gesti og bera veitingar til borðs.

Heimilt er að skipuleggja viðburði þar sem allt að 1.500 manns koma saman en allir gestir þurfa að sýna neikvætt hraðpróf og bera grímu ef ekki er unnt að virða eins metra regluna. Á skólaskemmtunum í framhaldsskólum þurfa allir að sýna neikvætt hraðpróf en slíkar skemmtanir eru undanþegnar eins metra reglu. Á öllum stærri viðburðum skulu gestir skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri.

Reglurnar gilda til og með 8. desember, stjórnvöld munu þó endurmeta þörf á takmörkunum eftir því sem efni standa til, bæði hvort aflétta megi fyrr eða framlengja þurfi aðgerðirnar.

Veitingastaðir mega hafa opið til kl. 23.00.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari