Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að fjöldi smita muni ekki ráða úr­slitum um það hvort að­gerðir vegna kórónu­veirunnar verði hertar. Einnig verði horft á það hversu margir veikjast al­var­lega. Þetta sagði Þór­ólfur í há­degis­fréttum RÚV í dag.

Hann segir að til skoðunar sé að fara í harðari að­gerðir til að ná far­aldrinum niður en það muni ó­hjá­kvæmi­lega setja margt úr skorðum líkt og í vor.

Eins og greint var frá í morgun greindust 38 smit hér á landi í gær. Frá 18. septem­ber síðast­liðnum hafa greinst 352 smit hér á landi og er er ný­gengi innan­lands­smita 113,2 á hverja 100 þúsund íbúa undan­farna 14 daga. Af ríkjum Norður­landanna er þetta hlut­fall hæst á Ís­landi.

Þór­ólfur segir að hann verði snöggur að skila til­lögum um hertar að­gerðir ef á þarf að halda. Hann segir þó já­kvætt að far­aldurinn sé í línu­legum vexti en ekki veldis­vexti.

„Það er bara spurning hvað gerist, hvort það taki svona langan tíma að ná honum niður eða hvort hann fari að rjúka upp í veldis­vöxt. Það er kannski það sem við óttumst meira,“ sagði Þór­ólfur í frétt RÚV.

Þór­ólfur sagði að mörg at­riði væru til skoðunar með til­liti til hugsan­lega hertra að­gerða, til dæmis veikindi starfs­manna á Land­spítalanum og fjöldi sem er í sótt­kví. 35 starfs­menn eru nú í ein­angrun og 178 starfs­menn í sótt­kví. Tveir sjúk­lingar liggja inni á Land­spítalanum vegna CO­VID-19.