Yfirvöld í Danmörku tilkynntu á blaðamannafundi rétt í þessu að sóttvarnaaðgerðir verði hertar í sautján sveitarfélögum í höfuðborginni og í nágrenni Kaupmannahafnar.

Smitum hefur fjölgað ört í Danmörku síðustu vikurnar en í gær greindust rúmlega 1.400 manns með kórónuveiruna. Aldrei hafa jafn margir greinst á einum sólarhring í landinu.

Langflestir hafa smitast í Kaupmannahöfn en ungt fólk er stór hluti smitaðra . Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur sagði á fundinum að nú þyrfti að ná tökum á smitum meðal ungs fólks í landinu og hvatti fólk til að fylgja settum sóttvarnareglum til hins ýtrasta.

Hertar aðgerðir ná til eftirfarandi sautján sveitarfélaga.

 • Albertslund
 • Ballerup
 • Brøndby
 • Gladsaxe
 • Glostrup
 • Herlev
 • Hvidovre
 • Høje-Taastrup
 • Ishøj
 • Rødovre
 • Vallensbæk
 • Dragør
 • Frederiksberg
 • Gentofte
 • Kaupmannahafnar
 • Lyngby-Taarbæk
 • Tårnby

Meðal þess sem nýju reglurnar kveða á um eru að allir í ofangreindum sveitarfélögum, 15 til 25 ára, fari í sýnatöku fyrir jól.

Þá verða takmarkanir settar á hversu margir mega vera í stórverslunum og verslunum stærri en 2.000 fermetrar í einu.

Félagsstarfsemi fyrir börn verður takmörkuð og verður nú miðað við hámark tíu börn í einu en áður voru það fimmtíu.

Frá og með 7. desember er háskólum ráðlagt að færa kennslu alfarið yfir í fjarnám og að próf verði sömuleiðis haldin sem fjarpróf.

Ef að smitum heldur áfram að fjölga á svæðinu verður einnig sett tímabundið bann á valkvæðar skurðaðgerðir.

Lars Weiss, borgarstjóri Kaupmannahafnar.
Fréttablaðið/AFP

Staðan grafalvarleg

Lars Weiss, borgarstjóri Kaupmannahafnar sagði að nú væri staðan alvarleg. Hann benti á að 285 af hverjum 100 þúsund íbúum í Kaupmannahöfn hafi greinst með kórónaveiruna síðustu vikuna.

„Við höfum ekki séð svona tölur frá því að faraldurinn kom til landsins í vor og smit eru enn að aukast. Við verðum að reyna að stöðva þetta núna ef það á ekki að grípa til enn harðari aðgerða," sagði Lars.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra sagði í Facebook-færslu fyrr í dag að fjöldi smita væri skuggulega hár, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Í ljós aðstæðna verði því gripið til hertari aðgerða í sautján sveitarfélögum, nú þyrftu allir að leggjast á eitt til að ná smitum niður fyrir jól.

Lad os få smitten ned inden jul 🙏🏻 Smittetallene er bekymrende høje. Og niveauet særligt i Hovedstadsområdet er for...

Posted by Mette Frederiksen on Tuesday, 1 December 2020