Sanna Marin, for­sætis­ráð­herra Finn­lands, til­kynnti í morgun að að­gerðir verði hertar í Finn­landi frá og með 8. mars en þriggja vikna lokun mun þá taka gildi í landinu. Þá segist Marin vera til­búin til að lýsa yfir neyðar­á­standi til að koma í veg fyrir út­breiðslu veirunnar.

„Ef við bíðum eftir að á­standið versni, þá verður enn erfiðara að stöðva það,“ sagði Marin en hún kvaðst vera til­búin til að lýsa yfir neyðar­á­standi strax í næstu viku, að því er kemur fram í frétt Reu­ters. Væri það sér­stak­lega gert til að stöðva út­breiðslu nýrra af­brigða veirunnar.

Veitingastöðum lokað

Eins og staðan er í dag hafa tæp­lega 56 þúsund manns greinst með kóróna­veiruna í Finn­landi og 737 látist eftir að hafa smitast. Þrátt fyrir að smit­stuðull Finna sé sá þriðji lægsti í Evrópu, á eftir Ís­landi og Noregi, hefur far­aldurinn verið í upp­sveiflu síðustu vikur. Norðmenn hafa sömuleiðis nýverið gripið til hertra aðgerða.

Að­gerðirnar fela í sér lokun veitinga­staða og sex manna samkomubann, auk þess sem börn eldri en 13 ára þurfa að sinna námi sínu heima. Ekki er þó kveðið á um út­göngu­bann í að­gerðunum. Verði neyðar­á­standi lýst yfir mun vinnu­dagur heil­brigðis­starfs­manna lengjast og þeim gert að af­lýsa hvers kyns fríum.

Dóms­mála­ráð­herra Finn­lands, Anna-Maja Henriks­son, hefur aftur á móti lýst því yfir að það sé ekki nauð­syn­legt að grípa til hörðustu að­gerðanna og lýsa yfir neyðar­á­standi. Með því að loka veitinga­stöðum væri hægt að ná mark­miðinu.