Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir það ekki vera í spilunum að herða sótt­varna­reglur enn frekar hér á landi í ljósi fjölgun smita í vikunni en þetta kom fram í Víg­línunni á Stöð 2 í kvöld. Hann í­trekaði að það væri þó ó­skyn­sam­legt að fara í til­slakanir á þessum tíma­punkti.

Alls eru nú 187 manns í ein­angrun með virkt smit hér á landi en tíu manns greindust með veiruna í gær, 21 daginn þar áður, og 20 þar áður. Þór­ólfur greindi frá því fyrr í dag að túlka þyrfti tölurnar með var­úð og að staðan væri við­kvæm.

Nú­verandi sótt­varna­ráð­stafanir innan­lands eru í gildi til þriðju­dagsins 1. desember en að­spurður um hvað myndi felast í nýjum að­gerðum sagði Þór­ólfur ýmis­legt koma til greina. Hann sé nú að verða tilbúinn með til­lögur sínar en það sé heil­brigðis­ráð­herra að á­kveða hvað nýjar að­gerðir fela í sér.

Ekki rétt að segja of mikið

Að sögn Þór­ólfs borgar það sig ekki að segja of mikið fyrr en að ráð­herra hefur birt reglu­gerð um tak­markanir og gerði hann ráð fyrir að það gerist í dag eða á morgun. Að­spurður um gildis­tíma reglu­gerðarinnar sagði hann það einnig vera til skoðunar.

„Það er sjónar­mið út af fyrir sig,“ sagði Þór­ólfur og vísaði til þess að rök væru ýmist með styttri gildis­tíma og lengri gildis­tíma. Hann sagði nú­verandi fyrir­komu­lag, að reglurnar gildi í tvær til þrjár vikur í senn, hafa gefist vel.

Þá sagði hann að mikið væri kallað eftir auknum fyrir­sjáan­leika. „En það er bara erfitt þegar veiran er svona ó­fyrir­sjáan­leg,“ sagði Þór­ólfur. Að­spurður um hvort mögu­leiki verði á til­slökunum fyrir jól sagði Þór­ólfur að vonandi væri ráð­rúm til að slaka á en nú væri hann að­eins með hugann við 2. desember.

Hann bætti við að það væri mark­mið sótt­varna­yfir­valda að tak­markanir séu ekki of í­þyngjandi, það væri hægt að færa þau rök að besta sótt­varna­ráð­stöfunin væri að loka öllu og hleypa engum út en reynt væri að hafa tak­markanir eins lítið í­þyngjandi og hægt er.

Ósammála Kára

Þór­ólfur var einnig spurður um gagn­rýni Kára Stefáns­sonar, for­stjóra Ís­lenskra erfða­greiningar, en Kári hélt því fram í gær að yfir­lýsingar sótt­varna­yfir­valda um mögu­legar til­slakanir hafi gert það að verkum að fólk væri nú kæru­lausara en áður. Hann sagði yfir­völd ekki geta spáð hvað gerist næst og að þau ættu ekki að gera það.

„Mér finnst ó­mak­legt af fóst­bróður mínum í Co­vid bar­áttunni að orða þetta svona,“ sagði Þór­ólfur og bætti við að hann hafi aldrei lofað neinum til­slökunum heldur að­eins horft til gildis­tíma reglu­gerðar. Þá hafi hann einnig í­trekað haldið því fram að það þurfi að fara hægt í til­slakanir.