Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki vera í spilunum að herða sóttvarnareglur enn frekar hér á landi í ljósi fjölgun smita í vikunni en þetta kom fram í Víglínunni á Stöð 2 í kvöld. Hann ítrekaði að það væri þó óskynsamlegt að fara í tilslakanir á þessum tímapunkti.
Alls eru nú 187 manns í einangrun með virkt smit hér á landi en tíu manns greindust með veiruna í gær, 21 daginn þar áður, og 20 þar áður. Þórólfur greindi frá því fyrr í dag að túlka þyrfti tölurnar með varúð og að staðan væri viðkvæm.
Núverandi sóttvarnaráðstafanir innanlands eru í gildi til þriðjudagsins 1. desember en aðspurður um hvað myndi felast í nýjum aðgerðum sagði Þórólfur ýmislegt koma til greina. Hann sé nú að verða tilbúinn með tillögur sínar en það sé heilbrigðisráðherra að ákveða hvað nýjar aðgerðir fela í sér.
Ekki rétt að segja of mikið
Að sögn Þórólfs borgar það sig ekki að segja of mikið fyrr en að ráðherra hefur birt reglugerð um takmarkanir og gerði hann ráð fyrir að það gerist í dag eða á morgun. Aðspurður um gildistíma reglugerðarinnar sagði hann það einnig vera til skoðunar.
„Það er sjónarmið út af fyrir sig,“ sagði Þórólfur og vísaði til þess að rök væru ýmist með styttri gildistíma og lengri gildistíma. Hann sagði núverandi fyrirkomulag, að reglurnar gildi í tvær til þrjár vikur í senn, hafa gefist vel.
Þá sagði hann að mikið væri kallað eftir auknum fyrirsjáanleika. „En það er bara erfitt þegar veiran er svona ófyrirsjáanleg,“ sagði Þórólfur. Aðspurður um hvort möguleiki verði á tilslökunum fyrir jól sagði Þórólfur að vonandi væri ráðrúm til að slaka á en nú væri hann aðeins með hugann við 2. desember.
Hann bætti við að það væri markmið sóttvarnayfirvalda að takmarkanir séu ekki of íþyngjandi, það væri hægt að færa þau rök að besta sóttvarnaráðstöfunin væri að loka öllu og hleypa engum út en reynt væri að hafa takmarkanir eins lítið íþyngjandi og hægt er.
Ósammála Kára
Þórólfur var einnig spurður um gagnrýni Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskra erfðagreiningar, en Kári hélt því fram í gær að yfirlýsingar sóttvarnayfirvalda um mögulegar tilslakanir hafi gert það að verkum að fólk væri nú kærulausara en áður. Hann sagði yfirvöld ekki geta spáð hvað gerist næst og að þau ættu ekki að gera það.
„Mér finnst ómaklegt af fóstbróður mínum í Covid baráttunni að orða þetta svona,“ sagði Þórólfur og bætti við að hann hafi aldrei lofað neinum tilslökunum heldur aðeins horft til gildistíma reglugerðar. Þá hafi hann einnig ítrekað haldið því fram að það þurfi að fara hægt í tilslakanir.