Yfirvöld virðast hætt við að skylda þá sem búa á Íslandi í sóttkví á sóttvarnahótelum eftir að Landsréttur vísaði í gær frá kæru vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæti reglugerðar heilbrigðisráðherra þess efnis.Í staðinn á að efla eftirlit með fólki í heimasóttkví.

„Það er einmitt eitt af því sem við erum að skoða þessa dagana; hvaða fletir eru á því að auka eftirlitið,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum.Aðspurður segir Rögnvaldur of snemmt að segja til um hvaða aðferðir séu til skoðunar.

„Þetta er vinna sem er bara nýlega byrjuð og við eigum eftir að finna leiðir sem okkur finnast heppilegar,“ segir hann. „Það er í sjálfu sér allt til skoðunar og við erum opin fyrir öllu.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði við Fréttablaðið í gærkvöld að gefa eigi út nýja reglugerð, byggða á núverandi lögum. Gera má ráð fyrir því hún feli í sér að ferðamenn og þeir sem ekki búa hér fari áfram á sóttvarnahótel.

„Ég úti­­­loka það ekki að við gætum lagt til að það yrði að fara fram ein­hvers konar breyting á sótt­varna­lögum en fyrst um sinn ætlum að við að fara þessa leið í gegnum reglu­­gerð og fram­­kvæmdina,“ sagði ráðherra.

Rögnvaldur ítrekar að sá leki sem yfirvöld hafi ætlað að setja fyrir með ráðstöfunum á landamærunum og sóttvarnahótelinu snúist ekki aðeins um ferðamennina.

„Það er náttúrlega líka fólk sem býr hér og starfar og er með lögheimili á Íslandi sem við höfum verið í vandræðum með,“ segir Rögnvaldur. Vandinn sé því ekki leystur með því að skikka eingöngu ferðamenn á sóttvarnahótel.

Rögnvaldur segir að ekki hafi verið settur tímarammi fyrir lausn málsins. „Það væri ágætt að vera kominn með einhverja hugmynd fyrir helgi eða um helgina.“