„Kæru vinir, mig langar að segja ykkur ör­stutt frá starfs­háttum Banka­sýslunnar sem ég hef fengið að kynnast á undan­förnum dögum.“

Svona hefst Face­book færsla Hersis Sigur­geirs­sonar, dósents í fjár­málum við Há­skóla Ís­lands, en hann var fenginn af Ríkis­endur­skoðanda til þess að vera til ráð­gjafar við út­tekt á sölu á hlut ríkisins í Ís­lands­banka.

„Ég á­kvað að verða við beiðninni, enda með við­eig­andi þekkingu og reynslu vegna starfa minna á fjár­mála­markaði og við Há­skólann, og hef unnið að verk­efninu undan­farnar vikur,“ segir Hersir, en Banka­sýslan, Fjár­mála­ráðu­neytið og fleiri sem út­tektin tekur til vissu af ráðningu hans.

Hann segir að í fyrra­dag hafi honum borist sím­tal frá Ríkis­endur­skoðanda, sem hafði fengið bréf frá Banka­sýslunni um ferðir Hersis á sam­fé­lags­miðlum.

„Í fyrra­dag fékk ég svo sím­tal frá ríkis­endur­skoðanda sem sagði mér að honum hefði borist bréf frá Banka­sýslunni með á­bendingu um að ég hafi sett “like” á til­tekna færslu á fb sem varðaði út­boðið. Bréfið var alls þrjár síður, sent af starfs­manni Banka­sýslunnar og undir­ritað raf­rænt af for­stjóra hennar,“ segir Hersir á Face­book og er ekki sáttur við að það sé verið að fylgjast með honum á sam­fé­lags­miðlum.

„Ég kann ekki við slíkt eftir­lit. Það er al­var­legt þegar starfs­menn ríkis­stofnunar telja eðli­legt að leggjast í rann­sókn á skoðunum ráð­gjafa ó­háðra út­tektar­aðila og gera það á jafn hæpnum og hug­lægum for­sendum og hér birtast.“

Hann segist ekki hafa aðra skýringu á bréfa­skrifunum en að þau verði notuð til þess að kasta rýrð á út­tekt Ríkis­endur­skoðunar ef Banka­sýslan er ekki sátt við niður­stöðurnar.

„Það hugnast mér ekki og því á­kvað ég í gær að ljúka að­komu minni að út­tektinni.“