Odd­ný G. Harðar­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarnar, gerði geð­heilsu ís­lenskra barna að um­tals­efni á Al­þingi í dag og varpaði ljósi á slæma stöðu stúlkna á grunn­skóla­aldri sér­stak­lega.

„Herra for­seti. Það er erfitt að segja þetta upp­hátt en á því herrans ári 2022 telja einungis 27% stúlkna í 10. bekk stað­hæfinguna „ég er á­nægð með líf mitt“ eiga við um sig. Þetta kemur fram í skýrslu um á­falla­stjórnun stjórn­valda í Co­vid-19 far­aldrinum sem rædd var í síðustu viku hér í þinginu. Mun lægra hlut­fall stúlkna en drengja metur and­lega heilsu sína góða eða mjög góða,“ sagði Odd­ný.

Hún benti jafn­framt á að hjá stúlkum í 9. bekk fór hlut­fallið úr 62% á árinu 2018 niður í 44% árið 2021, mun minni lækkun verður hjá drengjum á sama tíma þó svo að líðan þeirra hafi líka versnað.

„Sama mynstur kemur fram þegar skoðað er það hlut­fall barna sem segja að sú full­yrðing að þau séu hamingju­söm eigi mjög vel við sig. Hamingju­sömum drengjum og stúlkum fækkar um­tals­vert hér á landi. 57% drengja í 10. bekk voru hamingju­söm árið 2018 borið saman við 49% árið 2022. Hjá stúlkum lækkaði hlut­fallið úr 40% í 28% á sama tíma. And­leg heilsa ís­lenskra barna, sér í lagi stúlkna, fer hratt versnandi. 64% stúlkna í 10. bekk fundu fyrir depurð viku­lega eða oftar árið 2022 saman­borið við 48% árið 2018. Aukinn kvíði er sömu­leiðis á­hyggju­efni en 77% stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða viku­lega eða oftar saman­borið við 38% drengja,“ sagði Odd­ný og bætti við að vaxandi munur er milli kynja í þessum efnum allt frá árinu 2007.

„Van­líðan stúlkna fer þó hratt versnandi síðast­liðin fjögur ár og munur á líðan drengja og stúlkna vex mikið á sama tíma, þ.e. á þeim tíma sem hæstv. mennta- og barna­mála­ráð­herra hefur farið með mál­efni barna,“ sagði Odd­ný áður en hún spurði Ás­mund Einar Daða­son, Mennta- og barna­mála­ráð­herra hvaða skýringar hann telji vera á þessari ó­heilla­þróun og hvernig hann ætli að taka á vandanum.

Ás­mundur hóf mál sitt á að taka undir með á­hyggjum Odd­nýjar og sagði mikil­vægt að ræða þessi mál á vett­vangi þingsins.

„Fyrst varðandi skýringar á þessu áður en ég fer í þær að­gerðir sem við þurfum að ráðast í. Ég held að það sé ekki ein­hver ein ein­hlít skýring á þessu. Ég held að það séu fleiri sam­sett at­riði sem þarna spila inn í, sam­fé­lagið okkar og breytingarnar sem eru að verða á því. Við þurfum að huga betur að grunn­gerðinni sem er fjöl­skyldan, hið mann­lega, og virkja betur sam­skipti for­eldra og barna,“ sagði Ás­mundur.

Ásmundur Einar var sammála Oddnýju en sagði vandamálið ekki auðleyst á skömmum tíma.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Ég held að þar hafi verið nei­kvæð þróun. Ég held að snjall­for­ritin og tækni­væðingin spili inn í þetta. Við sjáum líka Co­vid-far­aldurinn spila inn í þetta og fleiri at­riði. Við sjáum sam­bæri­lega þróun í all­flestum ef ekki öllum löndum sem við berum okkur saman við í hinum vest­ræna heimi,“ bætti hann við.

Ás­mundur sagði að stjórn­völd hafa verið með ýmsar að­gerðir í núinu til að bregðast við þessu, bæði styrkt ýmis geð­heil­brigðis­úr­ræði eins og Bergið headspace í tengslum við Co­vid-far­aldurinn, átak sem fé­lags­mála­ráðu­neytið leiddi og var hleypt af stokkunum fyrir ein­hverjum mánuðum síðan til að ná til ungs fólks og ung­menna.

„Það sem ég held að skipti mestu máli er að huga að því að grípa fyrr inn í skóla­kerfinu þegar kemur að geð­heil­brigði. Hluti af því sem við erum að vinna að núna, sem var sam­þykkt og er hluti af mennta­stefnu, er að koma upp þrepa­skiptum geð­heil­brigðis­stuðningi í skólunum og geð­heil­brigðis­fræðslu. Hluti af því er fyrir­huguð vinna um smíði á nýrri skóla­þjónustu­lög­gjöf vegna þess að við þurfum að grípa fyrr inn í. Við þurfum að ná til ein­stak­linganna áður en þarna er komið,“ sagði Ás­mundur.

„Það sama á við um of­beldis­um­ræðuna og það sem lýtur að þessu. Ég held að við þurfum að taka um­ræðu um skóla­kerfið okkar og hvernig við gerum það. Við erum að setja 80 milljónir núna í undir­búning á þessu verk­efni um geð­heil­brigði í skólum og þrepa­skiptan stuðning. Verk­efnis­stjórinn sem stýrði þeirri skýrslu og vinnu er kominn til starfa, við fengum hann lánaðan frá land­lækni og hann mun stýra þeirri vinnu á­fram En það er ekkert ein­hlítt svar um eitt­hvað sem við getum gert núna til þess að laga þetta. Það eru fleiri sam­þætt at­riði sem þurfa koma til,“ sagði Ás­munur að lokum.