Utanríkismál Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom hingað til lands á mánudaginn vegna ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem fram fer á fimmtudaginn. Hann fundaði í gær með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

Blinken mun auk þess funda með rússneskum starfsbróður sínum Sergei Lavrov en þetta er í fyrsta sinn sem ráðherrarnir hittast síðan Joe Biden tók við embætti forseta í janúar. Blinken sagðist bíða spenntur eftir að hitta Lavrov og ræða við hann um málefni norðurslóða á blaðamannafundi í Hörpu í gær með Guðlaugi Þór. Rússar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslendingum á fimmtudag.

Á blaðamannafundi í Moskvu á mánudaginn lýsti Lavrov því yfir að yfirráð á norðurskautssvæðinu væru í höndum Rússa og á blaðamannafundinum í Hörpu í gær var Blinken spurður út í afstöðu Bandaríkjastjórnar til orða Lavrov.

Blinken sagði að Rússar hefðu haldið fram kröfum á svæðinu sem væru brot á alþjóðlegum hafréttarlögum sem nauðsyn væri að bregðast við. Auk þess lýsti hann áhyggjum af vaxandi hernaðaruppbyggingu Rússa við norðurskaut. Hann undirstrikaði að gott samstarf hefði verið um málefni norðurslóða undanfarin ár og vonaðist að svo yrði áfram. Hann þakkaði Íslandi fyrir forystu í ráðinu sem eflt hefði starf þess.

Spurður um aðgerðir Bandaríkjanna til að reyna að koma á vopnahléi milli Ísraela og Hamas-samtakanna sagði Blinken að unnið væri að því hörðum höndum bak við tjöldin að reyna að stilla til friðar.

Bandaríkin hafa beitt neitunarvaldi gegn yfirlýsingum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að koma þurfi á vopnahléi og þar sem nauðsyn á tveggja ríkja lausn við deilum Ísraels og Palestínu er undirstrikuð.

Blinken sagði það vera afstöðu bandarískra stjórnvalda að mikilvægast nú væri að ræða við ríki á svæðinu og freista þess að koma á vopnahléi með samstarfi við þau. Ef Bandaríkin teldu að öryggisráðið væri besti vettvangurinn til aðgerða myndu þau ekki standa í vegi fyrir því. Það væri hins vegar ekki raunin á þessu stigi. Tveggja ríkja lausn væri vænlegasta leiðin til að koma á friði og Bandaríkin væru andsnúin öllum aðgerðum sem hindruðu slíkt.

Á fundi Guðlaugs Þórs og Blink­ens var rætt um samstarf Bandaríkjanna og Íslands og lýstu þeir því báðir yfir á blaðamannafundinum að bandalag þjóðanna myndi áfram gegna veigamiklu hlutverki, einkum hvað varðar norðurslóðir. Ísland hefði rödd sem hlustað væri á og unnið með góðum árangri að þeim málum er það sat í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Katrín Jakobsdóttir og Blinken funduðu einnig í gær og hvatti Katrín bandarísk yfirvöld til að beita sér í að stilla til friðar milli Ísraels og Palestínu. Eftir fundinn sagði Katrín að yfirlýsingar Lavrovs um norðurskautið væru tilraun hans til að marka sér stöðu fyrir fund Norðurskautsráðsins.