Fjögurra daga hernaðar­æfingar kín­verska hersins hófust við strendur Taí­van á fimmtu­deginum í síðustu viku, kín­verska ríkis­út­varpið sagði æfinguna vera „mikil­væga hernaðar­lega.“ Að sögn yfir­manna í kín­verska hernum eru æfingarnar svar við heim­sókn Nan­cyar Pelosi, for­seta full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings, til Taí­van í upp­hafi síðustu viku. Kín­verjar höfðu hótað til­heyrandi við­brögðum ef hún myndi heim­sækja ríkið.

Stjórn­völd í Taí­van hafa lýst því yfir að þau undir­búi herinn fyrir stríð en þau segjast þó ekki sækjast eftir stríði, enda er kín­verski herinn marg­falt stærri en sá taí­vanski. Um tvær milljónir manna eru í kín­verska hernum, saman­borið við um hundrað og sjö­tíu þúsund manns í taí­vanska hernum.

Með heim­sókn sinni varð Nan­cy Pelosi æðsti em­bættis­maður til þess að heim­sækja Taí­van í tuttugu og fimm ár, en for­seti full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings er þriðja valda­mesta manneskjan í banda­ríska valdapýramídanum.

Árið 1949 flúðu þjóð­ernis­sinnar frá Kína til eyjunnar Taí­van eftir ó­sigur í borgara­styrj­öld gegn kín­verska kommún­ista­flokknum, sem hefur verið við völd síðan þá. Stjórn­völd í Taí­van telja sig stjórna hinu eina sanna Kína, enda er form­legt heiti ríkisins Lýð­veldið Kína, nafnið Taí­van er þó oftast notað til þess að vísa til ríkisins en „Kína“ er notað til þess að vísa til Al­þýðu­lýð­veldisins Kína á megin­landinu.

Fá ríki viður­kenna sjálf­stæði Taí­van, einungis þrettán ríki gera það. Vatíkanið er eina Evrópu­ríkið sem viður­kennir sjálf­stæði þess og Banda­ríkin gera það heldur ekki form­lega, þrátt fyrir mikinn stuðning í gegnum tíðina, þá einna helst hernaðar­legan stuðning.

Taí­van er tæp­lega tvö hundruð kíló­metra frá ströndum megin­lands Kína og opin­ber stefna stjórn­valda í Kína er sú að Taí­van skuli lúta stjórn Kín­verja fyrir árið 2049, frið­sam­lega eða með afli. Taí­van er hernaðar­lega mikil­vægt fyrir Kína, þrátt fyrir þær yfir­lýsingar stjórn­valda að sam­eining Kína og Taí­van sé einungis frið­sam­leg.

For­seti Taí­van, Tsai Ing-wen, kallaði eftir því að al­þjóða­sam­fé­lagið myndi „styðja lýð­ræðis­legt Taí­van. G7-hópurinn, hópur sjö helstu iðn­ríkja heims, hefur for­dæmt æfingar kín­verska hersins, en það leiddi til þess að kín­versk stjórn­völd af­lýstu fundi sem utan­ríkis­ráð­herrar Kína og Japans stefndu á að halda í lok síðustu viku. Stjórn­völd í Kína hafa einnig til­kynnt við­skipta­þvinganir gegn Pelosi, ekki hefur enn verið til­kynnt hvers eðlis þær eru en slíkar þvinganir eru oftar en ekki tákn­rænar.

Þá hafa Kín­verjar einnig dregið sig út úr sam­starfi við Banda­ríkin um lofts­lags­mál, en ríkin eru tvö mest mengandi ríki á jörðinni. Árið 2014 komust þau að sam­komu­lagi um að draga úr mengun, en sá samningur var talinn vera einn mikil­vægasti samningur í sögu lofts­lags­mála.

Stjórn­völd í Kína og her þeirra hafa hunsað á­köll eftir því að minnka spennuna á svæðinu og hafa ekki gefið neinar yfir­lýsingar um hvernig fram­haldið verður, hvort þau muni halda á­fram hernaðar­æfingum eða ekki.