Bandarískir hermenn sem störfuðu á herstöðinni við Keflavíkurflugvöll eru margir hverjir sólgnir í íslenskan mat eftir dvöl sína hér. Í viðleitni til að endurupplifa ljúfar minningar úr norðri setja margir hverjir það ekki fyrir sig að borga hátt verð fyrir eitt af flaggskipum íslenskrar matarmenningar, skammt af SS-pylsum með öllu.

Á Facebook-síðunni NASKEF er tæplega 5.000 manna samfélag þeirra sem tengjast herstöðinni fyrrverandi með einhverjum hætti. Þar deila Bandaríkjamenn reglulega myndum af því þegar matarpakkar berast frá íslenskum netverslunum. Einn þeirra sem birti á dögunum slíka mynd er Richard J. Tate. Hann settist í helgan stein fyrir nokkrum árum eftir tæplega aldarfjórðungs þjónustu í bandaríska hernum. Á ferli sínum var hann staðsettur á herstöðvum Bandaríkjamanna um allan heim en einn staður stendur upp úr, Ísland.

„Ég var í átján mánuði á Íslandi, frá september 2003 fram á sumarið 2005. Ég elskaði landið og myndi alvarlega íhuga að sækja um starf þar sem almennur borgari ef herstöðin myndi einhvern tímann opna aftur,“ segir Richard.

Hann nefnir miðnæturgolf að sumri til sem eina af sínum bestu minningum en að sérstaklega hafi vinátta og hlýja Íslendinga heillað hann og ekki síður matarhefðir landsins. „Ég elskaði fiskinn ykkar, sérstaklega þorskinn og laxinn. Svo var lambakjötið alveg ótrúlegt,“ segir Richard.

Uppáhaldsskyndibitinn hans á meðan á dvöl hans stóð voru SS-pylsur. „Ég gekk inn á sölustað og óskaði eftir því að fá pylsu alveg eins og Íslendingar vilja hana og fékk hana því með öllu. Það var alveg unaðsleg máltíð og ég fékk mér reglulega pylsur á meðan á dvöl minni stóð,“ segir Richard sem kveðst vera mikill pylsuunnandi og hafa bragðað slíka fæðu víða um heim. Engar pylsur komist þó með tærnar þar sem þær íslensku hafa hælanna.

Richard_J_tate.jpg

Richard J. Tate var hermaður á Keflavíkurflugvelli

„Pylsurnar sjálfar eru ljúffengar en galdurinn felst ekki síður í sósunum sem fylgja með. Brakandi ferskur laukurinn er svo punkturinn yfir i-ið,“ segir Richard af innlifun.

Richard, sem er búsettur í New Jersey-fylki í Bandaríkjunum, pantaði því á dögunum matarpakka frá íslenskri netverslun, alls fimm pylsur með öllu tilheyrandi sem og skammt af kokteilsósu. Pakkinn kostaði hann 74 dollara sem þýðir að hver pylsa hefur kostað um 2.100 krónur. Rétt er að geta þess að sendingarkostnaður vó þyngst.

„Þetta var hverrar krónu virði. Konan mín elskaði pylsurnar þannig að ég reikna með að panta fljótlega annan skammt,“ segir Richard. Hann birti mynd af fengnum á áðurnefndri Facebook-síðu og viðbrögð kollega hans létu ekki á sér standa. Fjöldi sambærilegra mynda barst og því er ljóst að tugir bandarískra hermanna láta senda sér hráefni í „eina með öllu“ vestur um haf með ærnum tilkostnaði til þess að endurupplifa ljúfar minningar frá Fróni.