Allsherjar herkvaðning hefur verið send út af leiðtogum aðskilnaðarsinna í Donetsk- og Lugansk- héruðunum í austurhluta Úkraínu vegna ótta um að stríðsátök muni brjótast út á næstu dögum.
Yfirvöld í héruðunum hafa hvatt almenning til að forða sér yfir til Rússlands samkvæmt vef AP News.
Myndskeið sem birt var á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum sýnir Denis Pushilin, leiðtoga aðskilnaðarsinna í Donetsk-héraðinu, hvetja samborgara sína að mæta á herkvaðningarskrifstofur í landinu þar sem hann væri búinn að skrifa undir tilskipun um herkvaðningu.
Skömmu síðar sendi Leonid Pasechnik, leiðtogi aðskilnaðarsinna í nágrannahéraðinu Lugansk, sambærilega yfirlýsingu.
Áætlað er að um 150 þúsund rússneskra hermanna séu nú staðsettir við landamæri Úkraínu og eiga miklar heræfingar að hefjast í dag.
Á blaðamannafundi í gærkvöldi kvaðst Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, vera sannfærður um að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, væri búinn að ákveða að gera innrás í Úkraínu.
Þá ítrekaði Biden að árásin gæti átt sér stað á næstu dögum og að líklegt yrði að Rússar myndu gera innrás í höfuðborg Úkraínu, Kænugarð.