Her Mjanmar hefur tekið völdin í landinu og hneppt Aung San Suu Kyi og aðra leiðtoga ríkisstjórnar þess í varðhald. Segir í yfirlýsingu frá hernum að herinn ætli sér að halda völdum í eitt ár.
Að því er fram kemur á vef Guardian mun leiðtogi hersins, hershöfðinginn Min Aung Hlaing fara með völdin í landinu næsta árið. Mikillar spennu hefur gætt í samskiptum stjórnmálamanna landsins og hersins undanfarna mánuði, í kjölfar kosninga í nóvember.
Hafa leiðtogar hersins fett fingur út í framkvæmd kosninganna og ýjað að því að maðkur hafi verið í mysunni, en flokkur Aung San Suu Kyi, NLD, vann mikinn sigur í kosningunum og fékk 396 þingsæti af 476 mögulegum. Andstæðingur NLD, flokkur sem studdur var af hernum fékk einungis 33 sæti.
Hafa forsvarsmenn hersins fullyrt að þeir hafi fundið 8,6 milljón tilvik um kosningasvik. Mjanmar hafði verið undir herstjórn í rúm fimmtíu ár allt þar til fyrir tíu árum síðan, 2011.
Aðgerðir hersins hafa þegar verið fordæmdar á heimsvísu. Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Joe Biden, Bandaríkjaforseta, segir að Bandaríkin seti sig upp á móti öllum tilraunum þeirra sem vilja snúa við niðurstöðum nýafstaðinna kosninga þar í landi.
Þá hefur Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kallað eftir því að stjórnmálamönnum og embættismönnum verði sleppt úr haldi. Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir að tíðindin séu áfall fyrir lýðræðið í Mjanmar.
Sjálf hefur leiðtogi landsins, Aung San Suu Kyi, kallað eftir því að almenningur í landinu flykkist út á götur landsins til þess að mótmæla valdaráni hersins. Fullyrðir hún að herinn ætli sér að koma á einræði að nýju í landinu.