Her Mjanmar hefur tekið völdin í landinu og hneppt Aung San Suu Kyi og aðra leið­toga ríkis­stjórnar þess í varð­hald. Segir í yfir­lýsingu frá hernum að herinn ætli sér að halda völdum í eitt ár.

Að því er fram kemur á vef Guar­dian mun leið­togi hersins, hers­höfðinginn Min Aung Hla­ing fara með völdin í landinu næsta árið. Mikillar spennu hefur gætt í sam­skiptum stjórn­mála­manna landsins og hersins undan­farna mánuði, í kjöl­far kosninga í nóvember.

Hafa leið­togar hersins fett fingur út í fram­kvæmd kosninganna og ýjað að því að maðkur hafi verið í mysunni, en flokkur Aung San Suu Kyi, NLD, vann mikinn sigur í kosningunum og fékk 396 þing­sæti af 476 mögu­legum. And­stæðingur NLD, flokkur sem studdur var af hernum fékk einungis 33 sæti.

Hafa for­svars­menn hersins full­yrt að þeir hafi fundið 8,6 milljón til­vik um kosninga­svik. Mjanmar hafði verið undir her­stjórn í rúm fimm­tíu ár allt þar til fyrir tíu árum síðan, 2011.

Að­gerðir hersins hafa þegar verið for­dæmdar á heims­vísu. Jen P­saki, fjöl­miðla­full­trúi Joe Biden, Banda­ríkja­for­seta, segir að Banda­ríkin seti sig upp á móti öllum til­raunum þeirra sem vilja snúa við niður­stöðum ný­af­staðinna kosninga þar í landi.

Þá hefur Antony Blin­ken, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, kallað eftir því að stjórn­mála­mönnum og em­bættis­mönnum verði sleppt úr haldi. Antonio Guter­res, aðal­ritari Sam­einuðu þjóðanna, segir að tíðindin séu á­fall fyrir lýð­ræðið í Mjanmar.

Sjálf hefur leið­togi landsins, Aung San Suu Kyi, kallað eftir því að al­menningur í landinu flykkist út á götur landsins til þess að mót­mæla valda­ráni hersins. Full­yrðir hún að herinn ætli sér að koma á ein­ræði að nýju í landinu.