Her­­­foringja­­­stjórn Mjanmar, sem framdi valda­rán 1. febrúar og steypti lýð­ræðis­­­lega kjörinni stjórn landsins af stóli, lofaði í dag að kosningar færu fram og hún myndi af­sala sér völdum. Lagðar hafa verið fram nýjar á­kærur á hendur Aung San Suu Kyi, fyrr­verandi for­­­sætis­ráð­herra landsins og hand­hafa friðar­verð­­­launa Nóbels. Hún er nú þegar á­kærð fyrir að hafa flutt inn sex tal­­­stöðvar án leyfis. Nú hefur hún einnig verið á­kærð fyrir að brjóta gegn lögum um náttúru­ham­­­farir.

Aung San Suu Kyi, sem steypt var af stóli for­sætis­ráð­herra í valda­ráninu 1. febrúar.
Fréttablaðið/EPA

Fylkis­hers­höfðinginn Zaw Min Tun, tals­­­maður her­­­foringja­­­stjórnarinnar, sagði í dag að valda­ránið hefði verið rétt­­­mætt og hafnaði full­yrðingum um að kín­versk stjórn­völd hefðu átt nokkurn hlut að máli eða veitt að­­­stoð við valda­ránið. „Mark­mið okkar er að halda kosningar og af­henda völdin til sigur­vegara þeirra.“ Í nóvember fóru fram kosningar í landinu þar sem flokkur Suu Kyi vann yfir­­­burða­­­sigur og flokkur hersins bar af­hroð. Herinn hefur síðan þá haldið því fram að brögð hafi verið í tafli.

Zaw Min Tun á blaða­manna­fundinum í dag.
Fréttablaðið/AFP

Hann vildi ekkert gefa upp um hve­­nær kosninga mætti vænta og hafnaði því að Suu Kyi og aðrir úr stjórn hennar, líkt og for­­setinn Win Myint, væru í fangelsi. Þau dveldu á heimilum sínum af öryggis­á­­stæðum á meðan á­kæru­­ferli væri í gangi. Engra breytinga væri að vænta á utan­­­ríkis­­stefnu landsins og það væri enn opið er­­lendum fyrir­­­tækjum.

Gríðar­­leg mót­­mæli hafa verið víða um landið frá valda­ráninu. Herinn hefur róið öllum árum að því að reyna að koma böndum á á­standið og lokað á Inter­net­að­­gang þar til að reyna að koma í veg fyrir að and­­stæðingar þess geti nýtt sér það til að skipu­­leggja mót­­mæla­að­­gerðir. Það hefur litlu skilað en opin­berir starfs­­menn hafa verið á­berandi í mót­­mælunum og staðið hefur verið fyrir ýmis­­konar að­­gerðum til að reyna að knýja her­­foringja­­stjórnina til að skila völdum aftur til lýð­ræðis­­legra kjörinna stjórn­valda.

Lög­regla hefur skotið á mót­­mælendur nokkrum sinnum, oftast með gúmmí­­kúlum en í það minnsta einn mót­­mælandi var skotinn með al­vöru byssu­kúlu. Það var 19 ára kona sem tók þátt í mót­­mælum í höfuð­­borginni Nay Pyi Taw í síðustu viku og var hún skotin i höfuðið. Sam­­kvæmt læknum er ekki gert ráð fyrir að hún lifi af.

Her­menn í Nay Pyi Taw.
Fréttablaðið/AFP

Sex særðust er lög­regla skaut gúmmí­­kúlum í dag á mót­­mælendur í bænum Ma­ung­­mya í mið­hluta Mjanmar sem var að mót­­mæla hand­töku á kennara. Í yfir­­­lýsingu frá hernum sagði að mót­­mælendur hefðu kastað grjóti í lög­­reglu og ein­hverjir þeirra slasast. Zaw Min Tun sagði á blaða­manna­fundinum í dag að lög­­reglu­­maður hefði látist eftir að hafa særst í mót­­mælum í borginni Manda­lay í gær. Hann hélt því fram að aukin harka væri tekin að færast í að­­gerðir mót­­mælenda og borgara­­leg ó­­hlýðni jafnaðist á við ó­­lög­­mæta þvingun gegn opin­berum starfs­­mönnum.

„Við munum sýna þolin­mæði. Eftir það munum við grípa til að­gerða í sam­ræmi við lögin,“ sagði Zaw Min Tun. Herinn hefur veitt sér mjög víð­tækar laga­heimildir til að hús­leita og að hand­taka fólk, auk þess að breyta hegningar­lög­gjöf Mjanmar á þann veg að mót­mælendur eiga yfir höfði sér harðar refsingar og langa fangelsis­vist.

Mót­mælendur við Seðla­bankann í Y­angon.
Fréttablaðið/AFP
Munkar mót­mæla við skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna í Y­angon.
Munkar mótmæla fyrir utan skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Yangon.