Hernaðar­yfir­völd í Suður-Afríku til­kynntu í dag að herinn hafi verið kallaður út til að bregðast við ó­eirðum sem nú geisa í landinu eftir að fyrr­verandi for­seti landsins, Jacob Zumo, gaf sig fram til lög­reglu í síðustu viku.

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið hafa sjö manns þegar látist í ó­eirðunum og hundruð verið hand­tekin en stuðnings­menn Zuma hafa meðal annars sett upp logandi vega­tálma á þjóð­vegum í tveimur héruðum og brotist inn í verslanir.

Ákærður fyrir spillingu

Zuma var í lok júní dæmdur í 15 mánaða fangelsi af Hæsta­rétti Suður-Afríku fyrir ó­virðingu við réttinn þar sem hann mætti ekki fyrir dóm­stóla til að svara spurningum um meinta spillingu hans á meðan hann gegndi em­bætti for­seta árin 2009 til 2018.

Lög­menn Zuma óskuðu eftir því í dag að dómurinn yrði felldur úr gildi en ó­lík­legt er að rétturinn fallist á þá kröfu. Hann á enn yfir höfði sér á­kærur fyrir spillingu í tengslum við milljarða dala vopna­sölu árið 1999, þegar hann var vara­for­seti.