Vin­sælasti grín­isti Mjanmar, Ma­ung Thura, hefur verið hand­tekinn af stjórn­völdum þar í landi. Hand­taka Thura, sem er þekkt á­deilu­ljóð­skáld í heima­landi sínu, var hluti af að­gerðum þar­lendra stjórn­valda til þess að kveða niður mót­mæli í landinu sem þau telja vera að and­mæla valda­ráni hersins í febrúar síðast­liðnum.

Thura, sem þekktur er undir lista­manns­nafninu Zarganar, var fjar­lægður af heimili sínu í Y­angon af lög­reglunni sam­kvæmt sam­starfs­fé­laga hans, Nga Pyaw Kyaw.
Þessi sex­tugi grín­isti hefur ýmist verið inni í eða utan fangelsis síðan árið 1988. Hann hefur verið ötull í and­mælum sínum við ein­ræði og her­stjórn í landinu og gagn­rýnt her­stjórnina í Búrma og síðar Mjanmar harð­lega.

Mót­mælendur í Mjanmar héldu á lituðum eggjum um páska­helgina í mót­mæla­skyni en lög­reglan freistaði þess að kveða niður mót­mælin með bar­smíðum.

Árið 2007 var Zarganar hand­tekinn á heimili sínu vegna mót­mæla sinna og ári síðar var hann dæmdur í 45 ára fangelsi fyrir list­rænan gjörning sem var talinn var inni­halda ó­lög­lega gagn­rýni á stjórn­völd. Þessi refsins var svo milduð niður í 35 ár eftir á­frýjun árið 2009.

Tveimur árum síðar var Zarganar hins vegar sleppt úr fangelsi eftir mikinn þrýsting frá mann­réttindar­sam­tökum um lausn hans.
Í síðustu viku voru að minnsta kosti 60 mót­mælendur hand­teknir fyrir mót­mæli í formi bók­mennta, kvik­mynda, tón­listar og í gegnum fjöl­miðla. Þessir ein­staklingar eru sakaðir um að dreifa upp­lýsingum sem ógna stöðug­leika í landinu.

Undir lok síðasta árs vann Aung San Suu Kyi for­seta­kosningar í Mjanmar með miklum yfir­burðum en í upp­hafi þessa árs framdi herinn í landinu, Tatma­daw, valda­rán og svipti Suu Kyi völdum og færði þau til hers­höfðingja hersins.

Herinn lýsti í kjöl­farið yfir neyðar­á­standi í Mjanmar, til­kynnti að her­lög giltu í landinu, lokaði landa­mærum landsins og neyddi flokks­menn í flokki Suu Kyi frá höfuð­borg landsins, Naypyitaw.

Frá því í byrjun febrúar hafa þúsundir ríkis­borgara í Mjanmar mót­mælti valda­ráninu og herinn hefur freistað þess að hefta mót­mælin með of­beldi. Öryggis­sveitir brutu svo upp mót­mæli lækna sem fóru fram í Manda­lay í gær með því að nota raf­byssur og loft­byssur.

Vitni kvað öryggis­sveitir hafa notað bif­reiðar og mótor­hjól til þess að keyra inn í hóp mót­mælendanna til að leysa upp mót­mælin. Talið er að minnsta kosti 570, þar af 47 börn, hafi verið myrt í að­gerðum öryggis­sveita síðan í febrúar síðast­liðnum.

Þá hafa 2.728 verið hnepptir í varð­hald fyrir mót­mæla­starf­semi sína og þúsundir hafa flúið til Taí­lands og Bangla­desh til þess að losna undan of­beldi yfir­valda í Mjanmar.