Svisslendingar samþykktu í dag að herða vopnalöggjöf í landinu eftir að 64% kjósenda kusu með breytingunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. BBC greinir frá þessu.

Lögin verða nú hert og verða í samræmi við reglur Evrópusambandsins sem Sviss er þó ekki aðildarríki að. Hins vegar var þátttaka ríkisins í Schenegen-samkomulaginu í hættu hefðu breytingarnar ekki verið samþykktar.

Sviss er meðal þeirra ríkja í Evrópu sem eru með hæst hlutfall byssueigenda. Þannig má finna byssu inni á tæplega 48% heimila þar í landi.

Evrópusambandið hafði áður hvatt Sviss til að herða vopnalöggjöf sína og gera hana samræmda þeirri sem var inleidd meðal aðildarríkja þess eftir hryðjuverkaárásina í París árið 2015. Í henni felst algjört bann á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum rifflum sem vakti mikla gagnrýni meðal íbúa í Sviss. Þar er nefnilega hefð fyrir því að fyrrverandi hermenn haldi rifflum sínum eftir að þeir hætta í hernum.

Embættismönnum Sviss tókst þó að semja um vissar undanþágur frá reglunum en baráttufólk fyrir byssueign þar í landi er enn mjög ósátt með nýju löggjöfina.