Nú er lokið Vostok-heræfingunni sem fram fór í nágrenni Vladivostok í Rússlandi sem haldin var í skugga viðskiptaþvinganna gegn þeim og harðrar andstöðu margra ríkja við innrás Rússa í Úkraínu. Vladimír Pútín sótti æfinguna á miðvikudag og kannaði aðstæður.

Vla­dimír Pútín heim­sótti her­æfinguna.

Þar tóku þátt nokkur ríki sem vin­veitt eru Rúss­landi. Var Kína eitt þeirra en þetta í annað sinn sem landið tekur þátt og í fjórða skiptið sem stunda her­æfingar með Rúss­landi.

Sam­kvæmt kín­verska dag­blaðinu South China Morning Post er sam­starf Rússa og Kín­verja í varnar­málum að aukast. Vitnað er til máls­gagns kín­verska hersins þar sem segir að herinn sé vel í stakk búinn að takast á við stríð og fram­ganga hersins á Vostok-her­æfingunni sýni hve þróaður herinn er orðinn. Auk hersins tók kín­verski sjó­herinn þátt í æfingum á hafi með þeim rúss­neska í Japans­hafi. Slíkt hefur aldrei átt sér stað áður.

Rúss­neskir her­menn.
Fréttablaðið/EPA

Alls sendu Kín­verjar um tvö þúsund manns og þrjú hundruð her­tæki á leikana. Einungis Rússar voru fjöl­mennari af þeim fjór­tán löndum sem tóku þátt. Þeirra á meðal eru, auk Kína, Laos, Ind­landi, Mongólíu, Níkaragva, Sýr­landi, Armeníu, Kasakstan, Kirgistan, Alsír, Hvíta-Rúss­landi og Tadsíkistan. At­hygli vekur að Ind­land tók í ágúst þátt í her­æfingum með and­stæðingum Rússa undir stjórn Banda­ríkja­manna. Þeir hafa líst á­hyggjum af þátt­töku Ind­verja.

Orrustu­þotur kín­verska hersins flugu yfir landa­mærin til Rúss­lands til þátt­töku í her­æfingum og er það í fyrsta skipti sem flug­vélar hans fljúga beint á slíkar æfingar frá Kína og aftur heim. Þetta þykir benda til þess að sam­starfið milli rúss­neska hersins og þess kín­verska sé orðið afar mikið.

Hér sjást fánar nokkurra þjóða sem tóku þátt.
Fréttablaðið/EPA