For­saga málsins er sú að í maí síðast­liðnum sendu um­boðs­menn fram­boða Pírata í Kópa­vogi, Reykja­vík, Hafnar­firði og sam­eigin­legs fram­boðs Pírata og annarra í Garða­bæ kæru til Lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu vegna þess, sem þeir vildu meina að væri ó­lög­legur kosninga­á­róður á skilti sem sneri að at­kvæða­greiðslu utan kjör­fundar í Holta­görðum.

„Við erum að tala um aug­lýsingu sem var mjög sýni­leg frá bíla­stæði utan kjör­fundar, sýni­leg út um glugga gangsins sem liggur að rýminu þar sem kjör­staðurinn er. Það hlýtur að þurfa að taka til­lit til þess hversu stór og sýni­leg aug­lýsingin er, óháð því hversu langt hún er frá kjör­stað,“ segir Ind­riði.

Í kærunni er vísað til 69. gr. laga nr. 112/2021, nánar til­tekið 4 mgr. á­kvæðisins þar sem kemur fram að: „kjör­stjóri skal sjá til þess að á kjör­stað og í næsta ná­grenni hans fari hvorki fram ó­leyfi­legur kosninga­á­róður eða kosninga­spjöll né önnur starf­semi sem truflar eða hindrar fram­kvæmd kosninga.“

Í úr­skurði Héraðs­sak­sóknara er kærunni vísað frá þar sem ekki sé grund­völlur til að hefja rann­sókn á grund­velli kærunnar. Þá sé ráðið af bókunum í gerða­bók að kjör­stjóri hafi verið upp­lýstur um aug­lýsingarnar, en metið það sem svo að ekki væri til­efni til að hafa af­skipti af þeim. Þá meti héraðs­sak­sóknari sem svo að vafi leiki á því hvort um­rætt skilti geti talist hafa verið á eða í næsta ná­grenni kjör­staðarins í skilningi laganna sem um ræðir.

Indriði tók myndir máli sínu til stuðnings, en að hans sögn var auglýsingin mjög sýnileg frá bílastæði utan kjörfundar sem og innan kjörstaðar.
Mynd/Aðsend

Ind­riði segir þessa rök­semdar­færslu Héraðs­sak­sóknara undar­lega, þá sér­staklega vegna þess að kæran snúi meðal annars að meintu að­gerðar­leysi kjör­stjóra.

„Þau vísa í það, að það hafi verið sótt úr gerða­bók að kjör­stjóri hafi verið upp­lýstur um þetta en ekki að­hafst. Mér finnst það skrýtið, að það sé partur af rök­semda­færslunni þegar kvörtunin snýr að mögu­legu að­gerðar­leysi kjör­stjóra. Það er eitt­hvað sem mér finnst ekki ganga upp sem rök fyrir frá­vísun,“ segir Ind­riði.

Þá sitji eftir efnis­legt mat héraðs­sak­sóknara á stað­setningu skiltisins.

„Það segir í lögunum á eða í grennd við kjör­stað. Mér finnst það hljóti að þurfa að taka til­lit til þess að í þessu til­felli er aug­lýsingin vel greinan­leg í ná­grenni kjör­staðar. Á tíma­bili sást þetta frá kjör­stað,“ segir Ind­riði.

Ind­riði hefur nú mánuð til þess að vísa úr­skurðinum til ríkis­sak­sóknara, en að hans sögn er hann ekki búinn að gera það upp við sig hvort hann ætli að gera það.

„Ég þarf að meta það við mig hvort það hafi ein­hvern til­gang að fara með þetta lengra. Það sem vakir fyrir mér með þessum mála­rekstri er að auka traust á kosningu á Ís­landi,“ segir Ind­riði. Því þurfi að fá úr þessu skorið með betri hætti.

„Senni­lega þarf að senda málið eins langt og er hægt að koma því. Þannig að ég reikna fast­lega með því að þessu verði vísað til ríkis­sak­sóknara,“ segir Ind­riði.