Máli mæðgnanna í schäfer-hunda­ræktinni Gjósku gegn fimm ein­stak­lingum sem sitja í stjórn Hunda­ræktunar­fé­lags Ís­lands (HRFÍ) var vísað frá í Héraðs­dómi Reykja­víkur í gær. Var mæðgunum, Örnu Rúnars­dóttur og Rúnu Helga­dóttur, gert að greiða stjórnar­mönnum 200 þúsund krónur í máls­kostnað.

Er þetta í annað skiptið sem málið kemur fyrir héraðs­dóm en fyrra máli var vísað frá þar sem ekki þótti af­gerandi hvort verið væri að stefna fé­laginu eða stjórn þess. Gjósku var vísað úr HRFÍ eftir að siða­nefnd úr­skurðaði að röng ræktunar­tík hefði verið skráð í goti.

Frétta­blaðið greindi frá því þann 25. októ­ber að mikill hiti hefði verið í málinu þegar lög­mennirnir Jón Egils­son, fyrir Gjósku, og Jónas Fr. Jóns­son, fyrir HRFÍ, tókust á. Jónas sagði slíka á­galla á mála­til­búnaðinum að ekki væri hægt að grípa til varna. Dóm­krafan væri ódómtæk, krafan van­reifuð og engin sönnunar­gögn lögð fram. Því ætti að vísa málinu frá.

Jón sagði úr­skurð siða­nefndar rangan og málið ætti að fá efnis­lega með­ferð. Arna gæti ekki stundað at­vinnu sína sem hunda­ræktandi. Æran og fjár­munir væru undir.