Máli mæðgnanna í schäfer-hundaræktinni Gjósku gegn fimm einstaklingum sem sitja í stjórn Hundaræktunarfélags Íslands (HRFÍ) var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Var mæðgunum, Örnu Rúnarsdóttur og Rúnu Helgadóttur, gert að greiða stjórnarmönnum 200 þúsund krónur í málskostnað.
Er þetta í annað skiptið sem málið kemur fyrir héraðsdóm en fyrra máli var vísað frá þar sem ekki þótti afgerandi hvort verið væri að stefna félaginu eða stjórn þess. Gjósku var vísað úr HRFÍ eftir að siðanefnd úrskurðaði að röng ræktunartík hefði verið skráð í goti.
Fréttablaðið greindi frá því þann 25. október að mikill hiti hefði verið í málinu þegar lögmennirnir Jón Egilsson, fyrir Gjósku, og Jónas Fr. Jónsson, fyrir HRFÍ, tókust á. Jónas sagði slíka ágalla á málatilbúnaðinum að ekki væri hægt að grípa til varna. Dómkrafan væri ódómtæk, krafan vanreifuð og engin sönnunargögn lögð fram. Því ætti að vísa málinu frá.
Jón sagði úrskurð siðanefndar rangan og málið ætti að fá efnislega meðferð. Arna gæti ekki stundað atvinnu sína sem hundaræktandi. Æran og fjármunir væru undir.