Brýnt er, með vísan til meðalhófs og reglna um jafnræði borgaranna að skýr heimild sé í lögum fyrir því að skylda einstaklinga til dvalar í sóttvarnahúsi, í tilviki þeirra sem eiga hér heimili og geta sætt heimasóttkví með sambærilegum hætti og aðrir landsmenn. Þetta kemur fram í úrskurðunum sem kveðnir voru upp í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis í dag.

Mildari reglur fyrir þá sem hafa umgengist smitaða

Í úrskurði sem Fréttablaðið hefur undir höndum er vísað til þess að einstaklingar sem hafa sannanlega umgengist smitaða einstaklinga fái að vera í sóttkví heima hjá sér. Ferðamönnum sem falli í tiltekinn hóp sé hins vegar gert skylt að dvelja í sóttvarnahúsi, þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hvort þeir hafi umgengist smitaða einstaklinga. Þetta fer að mati héraðsdóms í bága við reglur um meðalhóf og jafnræði.

Í úrskurðinum eru reifuð helstu sjónarmið sem máli skipta fyrir úrlausnarefnið. Um íþyngjandi aðgerðir sé að ræða og þær verði því að eiga sér stoð í lögum og ekki ganga gegn lögum. Þær megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefji og verði að vera til þess fallnar að þjóna markmiðum sínum. Þá beri stjórnvöldum hér sem endranær að virða skráðar og óskráðar reglur um jafnræði borgaranna.

Vikið er að þeirri víðtæku vernd sem borgurunum er tryggð í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu gegn því að frelsi þeirra í víðum skílningi verði skert. Lagaákvæði sem skerði þá vernd þurfi að vera skýr og gera verði ríkar kröfur til heimilda í lögum sem stjórnvöldum eru fengin til slíks.

Brýnt tilefni til sóttvarnaráðstafana

Að mati héraðsdóms er hafið yfir vafa að stjórnvöld höfðu brýnt tilefni til að grípa til sóttvarnaráðstafana og hafa það enn. Í úrskurðinum segir einnig að brýnir hagsmunir einstaklinga og réttindi sem undir venjulegum kringumstæðum séu varin af stjórnarskrá verði „undir öðrum kringumstæðum að víkja þegar almannahagsmunir krefjast þess, og aðgerðum er ætlað að vernda heilsu eða réttindi annarra en þeirra, hverra réttindi eru skert.“ Þessi sjónarmið sæki skýra stoð í mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Í úrskurðinum er vísað til þeirra röksemda sóttvarnalæknis fyrir hinni umdeildu vistun í sóttvarnahúsi, að almenningur hafi í ýmsum tilvikum ekki virt fyrirmæli um sóttkví. Sú ráðstöfun að skylda fólk til dvalar í sóttvarnahúsi tryggi betur eftirllit með þeim sem eru í sóttkví hverju sinni.

Markmiðið er lögmætt en mismunin ekki

„Samkvæmt þessu er markmið þeirra aðgerða sem hér um ræðir skýrt og miðar að því að sporna við því að farsóttin nái útbreiðslu hér á landi. Fer ekki á milli mála að það markmið helgast af almannahagsmunum og er lögmætt,“ segir í úrskurðinum.

Þá er vikið að því að umrætt ákvæði reglugerðarinnar gildi bara um ferðamenn sem koma til landsins.

„Er óhjákvæmilegt að líta svo á að um ferðamenn gildi strangari reglur heldur en um þá sem sannanlega hafa hafa umgengist smitaða einstaklinga, en þeir síðarnefndu sæta einungis heimasótttkví samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar.“ Ferðamönnum sem falla í tilgreindan hóp sé hins vegar gert dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi.

Skilgreining á sóttvarnahúsi hefur þýðingu

Þá er vísað til skilgreiningar á sóttvarnahúsi í sóttvarnalögum sem er svohljóðandi: „Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“ Umrædd skilgreining kom inn í nýsamþykkt sóttvarnalög í meðförum Alþingis að tillögu velferðarnefndar og var hún lögð til í þágu meðalhófs.

Um skilgreininguna og aðstæður varnaraðila segir í úrskurðinum: „Að virtum aðstæðum varnaraðila í máli þessu verður með engu móti séð að hann falli undir framangreinda skilgreiningu. Hefur því ekki verið mótmælt að varnaraðili, sem á lögheimili á Íslandi, hafi sannanlega í hús að venda og sé viljugur til að vera í sóttkví heima hjá sér eða eftir atvikum á öðrum stað sem uppfyllir skilyrði heimasóttkvíar.“

„Að virtum aðstæðum varnaraðila í máli þessu verður með engu móti séð að hann falli undir framangreinda skilgreiningu.“

Dvöl í sóttvarnahúsi augljóslega meira íþyngjandi

Þótt frelsisskerðing sem felist í sóttkví sé að mati dómsins sambætileg að vissu leyti, verði af ýmsum og sumpart augljósum ástæðum „að telja dvöl þar þungbærari en dvöl í heimahúsi. Gildir þá einu þótt viðurlög við því að brjóta gegn sóttkví séu hin sömu hvort sem um heimasóttkví ræðir eða sóttkví í sóttvarnahúsi.“

Brýnt sé, með vísan til meðalhófs og reglna um jafnræði borgaranna að skýr heimild sé til hinnar umdeildu ráðstöfunnar „í tilviki þeirra sem eiga hér heimili og geta sætt heimasóttkví með sambærilegum hætti og aðrir landsmenn.“

Reglugerðina skorti lagastoð

Héraðsdómur telur að þótt ákvörðun sóttvarnalæknis um vistun varnaraðila í sóttvarnahúsi hafi rúmast innan reglugerðar ráðherra hafi ákvæði reglugerðarinnar skort lagastoð og með því hafi ákvörðun gengið lengra en lögin heimili.

Lagaákvæði sóttvarnalaga sem reglugerðin byggir á „megnar ekki að hnika þeirri niðurstöðu þótt ákvæðið sé vissulega afar víðtækt og heldur ekki grunsemdir sóknaraðila um að einstaklingar virði ekki heimasóttkví. Er því óhjákvæmilegt að fella úr gildi þá ákvörðun sóknaraðila að varnaraðila verði gert skylt að dvelja í sóttvarnahúsi samkvæmt reglugerð 355/2021 enda verður talið að hann hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á að hann geti sjálfur fullnægt þeirri lagaskyldu sem á honum hvílir þess efnis að sæta sóttkví og ekki er um deild í málinu.“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Fara þurfi yfir mál hvers og eins

Í lok úrskurðarins segir að nauðsynlegt sé að farið verði yfir mál hvers og eins ferðamanns sem dvelur í sóttvarnahúsi kjósi viðkomandi að freista þess að binda endi á dvöl sína þar. Í slíkum tilvikum þurfi að kanna hvort viðkomandi búi við þær aðstæður sem greinir í skilgreiningu laganna um sóttvarnarhús.

Lýsi viðkomandi sig hins vegar andvígan því að sæta sóttkví, verði ekki séð að hann geti þá krafist þess að breyting verði á hans dvalarstað eins og sakir standa.

Bótakröfum vísað frá

Kröfum um skaða- og miskabætur var sjálfkrafa vísað frá dómi þar sem umrætt mál er byggt á sérstökum ákvæðum sóttvarnalaga sem heimila að frelsissvipting verði borin undir dóm.

Ekki liggur fyrir hvort sóttvarnalæknir kærir úrskurðina til Landsréttar.