Lögmaður þriggja fyrrverandi lykilstarfsmanna WOW og núverandi starfsmanna hjá Play hafnar alfarið kröfu félags Mi­chelle Ballarin um að þeir mæti í vitnaleiðslu, hætta væri á því að þau yrðu aðilar að mögulegu dómsmáli í framtíðinni.

Hart var tekist á um vitnaleiðslurnar í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður USA­erospace Partners, félags Michelle Ballarin, hafnaði því alfarið að þremenningarnir yrðu aðilar að dómsmáli í framtíðinni. Þau væru undir húsbóndaábyrgð og yrðu sjálf aldrei aðilar að slíku máli.

Sagði hann nauðsynlegt að fá vitnisburð þeirra til að upplýsa um hvað hafi orðið um flugrekstrarhandbækur WOW Air sem Ballarin keypti en hafi aldrei fengið.

Því hefur verið haldið fram að flugrekstrarhandbækurnar hafi verið stolið af Play Air, fullyrðingum sem Play hefur alfarið hafnað.

„Ef hann veit ekki hvar þessi gögn eru, guð hjálpi okkur!“

„Allt hér er undir húsbóndaábyrgð. Það hefur enginn haldið því fram að þessir aðilar hafi stolið einu né neinu. Hins vegar hefur verið haldið fram að hugsanlega hafi einhver stolið,“ sagði Páll Ágúst fyrir dómi fyrr í dag.

„Ef að það er þannig að þessir aðilar hafi stolið þessu eða það hafi verið gefið í skyn þá að sjálfsögðu hefði dómari hafnað þessari vitnaleiðslu, ekki hægt að spyrja einstakling spurninga sem hugsanlega geti bakað honum refsiábyrgð.“

Ítrekaði hann nokkrum sinnum að ekki kæmi til greina að stefna þremenningunum.

„Ég vil ræða við þessa aðila hvar þessi gögn voru geymd, hvernig voru þau geymd og hvað varð um fylgiskjölin,“ sagði Páll Ágúst. „Hér er mikið mistur og hér er mikil þoka. Og það er hægt að leysa með því að þessir þrír nafngreindu einstaklingar beri vitni.“

Sagði hann einn þeirra hafa skrifað undir gögnin til Samgöngustofu. „Ef hann veit ekki hvar þessi gögn eru, guð hjálpi okkur!“

Hæstiréttur skýr að ekki megi kalla aðila í dómsmáli til vitnis

Þórir Júlíusson, lögmaður þremenninganna, sagði að það kæmi skýr ásökun fram í greinargerð að þremenningarnir hefðu stolið gögnunum.

„Hæstiréttur er mjög skýr með það að ef það kemur til greina að þeir verði aðilar í dómsmáli þá er ekki heimild að kalla þau til vitnis,“ sagði Þórir.

Við þessar aðstæður sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þremenningarnir kunni að verða gagnaðilar í mögulegu dómsmáli vegna starfa sinna hjá WOW air.