Hálft ár er síðan eldgosið í Geldingadölum hófst. Gosið markaði mikil tímamót enda í fyrsta skipti sem gaus svo nærri mesta þéttbýlissvæði landsins.

Það er einnig talið boða upphaf nýs eldvirknitímabils á Reykjanesskaga sem varað getur í nokkur hundruð ár.

Á þessu hálfa ári hafa nýir gígar opnast, virknin minnkað og aukist til skiptis og hraun flætt í mismunandi áttir.

Fréttablaðið ræddi við jarðvísindamenn og fulltrúa almannavarna í tilefni afmælisins.

Mynd tekin úr þyrlu þegar eldgosið hófst
fréttablaðið/sigtryggur ari

Heppni að ekki hafi orðið stórslys

„Stærsta áskorunin hefur verið að takast á við þá miklu ásókn sem hefur verið í gosið,“ segir Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavörnum. Hann segir það lán í óláni að gosið hafi hafist í miðjum heimsfaraldri því annars hefði fjöldinn verið umtalsvert meiri. Hann játar því að það sé heppni að ekki hafi enn orðið stórslys.

„Fólk er að fara þangað í öllum veðrum og í alls konar klæðnaði. Við höfum líka séð mikla áhættuhegðun, svo sem að fólk er að klöngrast upp á hraunið og í gígnum,“ segir hann. „Fólk hefur gleymt sér í dýrðinni þarna og hagað sér eins og það sé á karnivali. Viðringin fyrir náttúrunni hefur ekki alltaf verið næg.“

Þrátt fyrir þetta segist Rögnvaldur ánægður með hvernig hafi tekist til til þessa. Hann segir innviðina á svæðinu ekki hafa verið tilbúna og ýmis verkefni sem þurfti að leysa, svo sem bílastæðamál og gönguleiðir. „Um tíma var rætt um að loka svæðinu. En síðan lögðust allir á eitt um að láta þetta ganga. Þetta var einstakt tækifæri,“ segir hann.

Rögnvaldur segir vel fylgst með gosinu og þeim breytingum sem geta orðið á því. Hann segir okkur hafa verið heppin að gosið kom upp á þessum stað, því fljótt á litið sé aðeins Suðurstrandarvegurinn í hættu. „Ef gosið heldur lengi áfram getur það breyst,“ segir hann.

Magnús Tumi, eldgosasérfræðingur
fréttablaðið/valli

Langdregið en ekki aflmikið

Jarðfræðingurinn Magnús Tumi Guðmundsson segir eldgosið nokkuð frábrugðið öðrum gosum á undanförnum árum og áratugum. Einkum að það hafi byrjað í rólegheitunum. Þegar gosið hófst, föstudagskvöldið 19. mars, lýsti Magnús því í sjónvarpsútsendingu sem „óttalegum ræfli“ og segir hann þá lýsingu enn eiga við. „Gosið hefur verið býsna rólegt allan tíman og hraunrennslið aldrei mikið,“ segir hann.

Magnús lýsir gosinu sem langdregnu en ekki aflmiklu. „Flest gos standa yfir í vikur,“ segir hann. Það sé nú orðið jafngamalt og Holuhraunsgosið, en sé stutt miðað við til dæmis Surtseyjargosið sem stóð í þrjú og hálft ár.

Óstöðugleiki hafi einkennt gosið fyrstu sex vikurnar eða svo, en frá því í lok apríl hefur það verið einn gígur og ein gosrás. Ekkert bendi til þess að gosið sé að færast en rennslið hafi verið mismunandi, til dæmis strókavirkni og lotuvirkni.

Magnús segir ekki aðeins almenning hafa sýnt gosinu mikinn áhuga, erlendir fræðimenn geri það líka. Aðgengileikinn skipti þar miklu, bæði hversu auðvelt sé að komast nálægt því og hversu vel er sjónvarpað. „Í jarðvísindadeildum um allan heim er horft á gosið,“ segir Magnús og nefnir að Patrick Allard, forseti Alþjóðaeldfjallasambandsins, hafi komið hingað. „Hann sagði mér að hann horfði á gosið í tíu mínútur af hverjum klukkutíma.“

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þurfum að læra að lifa með eldgosum

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur gerir ráð fyrir því að gosið nái mun hærri aldri. Einkum vegna þess að kvikan komi beint upp úr möttlinum. „Gosið byrjaði í rólegheitum og það hefur verið að leka úr því síðan,“ segir hann. „Mín tilfinning er sú að það muni standa í nokkur ár.“

Gerir hann ráð fyrir að með tímanum verði gosið stöðugra og að gígasvæðið í Geldingadölum verði að einni samfelldri hrauntjörn. Sagan bendi til þess að nýtt virknitímabil sé hafið á Reykjanesi og gos verði með einhverju millibili næstu aldir. Sum hafi verið mjög nálægt hver öðru í tíma.

Þorvaldur bendir á að á Íslandi verði eldgos á þriggja ára fresti en nú séu þau komin mjög nálægt stærsta þéttbýlissvæðinu. „Við þurfum að læra að lifa með eldgosum,“ segir hann og nefnir að eitt virkasta svæðið á Reykjanesi sé Bláfjallasvæðið þaðan sem hraun hefur komið að Reykjavík.

„Þegar kemur að uppbyggingu innviðanna þurfum við að taka mið af því að hér geta komið eldgos,“ segir Þorvaldur. „Ef við erum skynsöm undirbúum við okkur fyrir það versta. Við vorum heppin í Suðurlandsskjálftanum 17. júní, því að allir voru utandyra og við vorum heppin í þessu gosi. En við getum ekki alltaf treyst á heppnina.“

Nefnir hann að eldgos séu flókin og hafi fjölþætt áhrif, þeim fylgi til dæmis gjóskufall og gasmengun sem getur haft áhrif á heilsu fólks, innviði og umhverfið.