Frið­rik Sophus­son, stjórnar­for­maður Ís­lands­banka, segir að heppi­legra hefði verið að hækka laun Birnu Einars­dóttur, banka­stjóra Ís­lands­banka, tíðar og minna í einu. Allt síðasta ár, frá 1. janúar 2018, námu laun Birnu tæpum 4,9 milljónum króna en þau voru lækkuð niður í 4,2 milljónir 1. janúar síðast­liðinn. 

Frið­rik segir í sam­tali við Morgun­blaðið í dag að við hækkanir á launum Birnu hafi einkum verið horft til þess að kaup­aukar bankans hafi verið af­lagðir í upp­hafi árs 2017. Þeir hafi numið allt að 25 prósent af grunn­launum en að jafnaði verið í kringum 20 prósent. Jafn­framt hafi verið litið til launa­þróunar. 

„Það hefði eft­ir á að hyggja, ef hugs­un­in var að bæta Birnu þetta upp og taka til­­lit til um­­hverf­is­ins og hækk­un­ar á launa­­vísi­­tölu, þurft að hafa meiri fram­hleðslu í þessu,“ segir Frið­rik í sam­tali við Morgun­blaðið. 

Án eftir­stöðva kaup­auka hafi laun banka­stjórans numið 5 milljónum króna 2016, 4,38 millj­ónum eft­ir hækk­un 1. ág­úst 2017 og 5,1 millj­ón eft­ir hækk­un­ina 1. janú­ar 2018. Með kaup­auka voru heild­ar­­laun­in hins veg­ar 5,05 millj­ón­ir 2016, 4,84 millj­ón­ir 2017, 5,3 millj­ón­ir 2018 og 4,8 millj­ón­ir í ár. 

Frið­rik segir að litið hafi verið til launa­lækkunar, sem í gegn fór í byrjun árs, í kjöl­far um­ræðu um hækkanir kjara­ráðs. Birna hafi haft frum­kvæði að því að láta lækka laun sín. Laun hennar munu ennfremur ekki breytast á þessu ári.

Tals­vert hefur verið rætt um launa­hækkanir banka­stjóra Ís­lands­banka og Lands­bankans að undanförnu. Frétta­blaðið greindi frá því ný­verið að laun Lilju Bjarkar Einars­dóttur, banka­stjóra Lands­bankans, hafi hækkað um 82 prósent á innan við ári. Laun hennar hækkuðu síðast upp í 3,8 milljónir 1. apríl 2018.