„Mér finnst gaman að synda með hvölum eða sigla með þeim og finna hvað þeir eru kraftmiklir þannig að ég dreif mig í morgun. Um leið og ég setti á flot þá ruku þeir af stað inn fjörðinn og ég sá að torfan stefndi upp í klettana. Þar strönduðu nokkrir, flestir komust aftur út en einn festist, svo ég henti mér út í og byrjaði að hjálpa honum. Þá sá ég hvað þetta var stór hvalur, en ég fór að taka á honum og koma honum út í sem var geggjuð upplifun,“ segir Snorri Rafnsson, um nokkra hvali úr grindhvalavöðunni sem björgunarsveitin rak út úr Kolgrafafirði í gær en var komin aftur inn í fjörðinn þegar hann mætti á svæðið í dag.

Snorri Rafnsson er einn af fáum starfandi veiðimönnum á Vesturlandi og hefur vakið athygli á samskiptaforritinu Snapchat þar sem hann sýnir frá daglegu lífi veiðimannsins undir nafninu Vargurinn. Hann veiðir að mestu leyti minka, tófur og máva. Hann vakti landsathygli í fyrra fyrir að fanga örn sem verið hafði í hrakningum í Snæfellsbæ og komið honum í tímabundið fóstur í Húsdýragarðinum. Hann kallar sig því veiðimann og dýravin.

„Oft spilar það sterkt saman að þurfa að veiða eitt dýr til að hjálpa öðru, við þurfum að stjórna dýraríkinu vegna þess að mannskepnan hefur brenglað svo margt í náttúrunni, við þurfum því að breyta rétt,“ segir hann áður en hann lýsir því nánar hvernig hann bjargaði einum hvalnum í Kolgrafafirði í morgun.  

Flottur sigur

„Ég sá hvernig rifið lá og ég byrjaði að ýta honum eins og ég gat og velta honum raunverulega, það var mikill þari þarna sem hann flæktist í og ég reyndi að koma honum fyrir þá hindrun. Það kom þarna kajakræðari og við náðum að koma honum af stað. Það var flottur sigur.“

Snorri telur að það hafi tekið um 20 mínútur að koma hvalnum aftur á flot, af grynningunum yfir í dýpið og að jafnvel hafi þarna verið um forystuhvalinn að ræða. „Hvalavaðan beið eftir honum, það er oft forystuhvalurinn sem er fyrstur af stað og þar af leiðandi fyrstur til að stranda.“

Hvalurinn hafi farið beint í vöðuna og hinir hvalirnir þá rokið strax af stað. Snorri hafi drifið sig upp í kajakinn aftur og reynt að koma í veg fyrir að þeir syntu í átt að landi. Í kjölfarið hafi hann og maðurinn sem hjálpaði honum fyrr um morguninn reynt að koma vöðunni úr firðinum. Grandalaus landeigandi sem í sakleysi sínu hafi ætlað að taka myndir hafi óviljandi fælt hvalina og þeir rokið til baka inn fjörðinn, hann hafi síðan slegist í för og reynt að hjálpa þeim þegar hann hafi náð áttum en það hafi ekki gengið upp.

„Við rákum þá hægt og rólega út Kolgrafafjörðinn þangað til það kom maður á tuðru sem virtist ekki átta sig á því hvað við vorum að gera, að við værum að reyna að hjálpa þeim eitthvað. Um leið og þeir heyrðu hljóðið í mótornum þá ruku þeir inn fjörðinn og hafa jaðrað við það að stranda þar,“ segir hann og bætir við að bíða þurfi þar til að fjari aftur út til þess að „ráða eitthvað við þetta“.

„Við verðum bara að bíða og vona, náttúran verður auðvitað að sjá um sig sjálf en við getum hjálpað eitthvað. Ég tók eftir því að þeir eru orðinir blóðugir og krambúleraðir eftir botninn en við vonum það besta, að björgunarsveitin reki þá út í nótt, en það tekur nokkra klukkutíma en ég vona að þeir komist á auðan sjó.“

Partur af náttúrunni

Aðspurður hvort ekki sé hættulegt að vera í slíku návígi við dýrin kveðst hann ekki halda það, hann hafi tekið þátt í stærri björgunaraðgerðum í fyrra þar sem í vöðunnihafi hafi verið um 200 til 250 dýr. Það hafi gengið upp þar sem björgunarsveitin hafi gefið sér góðan tíma og rekið hvalina nógu langt frá landi.

Snorri útskýrir að tölvuverð vinna felist í því að farga slíkum fjölda ef þeir stranda. „Það þarf að urða dýrin og þau geta byrjað að úldna áður en tekst að losna við þau,“ segir hann.

„Þetta er partur af náttúrunni, þetta hefur gest oft áður í hundruð ára,“ segir hann að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af Snorra og hvalnum sem Vagn Ingólfsson tók upp.