Kona í rúss­nesku borginni Novgor­od hefur viður­kennt fyrir lög­reglu­yfir­völdum að hafa myrt tengda­son sinn og skorið af honum eistun, sem hún henti svo út um gluggann. Þetta kemur fram í um­fjöllun breska miðilsins Metro.

Þar kemur fram að dóttir hennar hafi hringt á lög­regluna eftir að móðirin hringdi í hana til að segja henni frá því sem hún gerði. Tengda­sonurinn, hinn 32 ára gamli Dmi­try Bogda­nov, lést af sárum sínum en hann var auk þess stunginn 27 sinnum.

Lög­reglu­yfir­völd segja að konan hafi sakað tengda­son sinn um að hafa ekki borgað sér ó­nefndar skuldir sínar og ekki veitt dóttur sinni og barna­barni sínu, syni fórnar­lambsins, nægi­lega mikinn fjár­hags­legan stuðning.

Eftir þetta er konan sögð hafa stungið manninn með hníf og síðan sví­virt lík hans með áður­nefndum hætti. Konan og maður hennar neituðu við fyrstu sök í málinu en hafa síðar viður­kennt að hafa myrt manninn.