Kona á fimmtugsaldri, Patricia Ripley frá Miami-Dade sýslu Flórída, hefur verið ákærð fyrir morðið á einhverfum syni sínum en Ripley hrinti hinum níu ára gamla Alejandro í skurð með þeim afleiðingum að hann drukknaði síðastliðinn fimmtudag.

Ripley hafði hrint Alejandro í annan skurð fyrr um daginn en honum var þá bjargað. Myndbönd úr öryggismyndavélum sýndu greinilega að Ripley hafi hrint Alejandro í skurðinn en ekki liggur fyrir hvernig hún útskýrði málið fyrir manninnum sem bjargaði honum.

Um það bil klukkutíma síðar hrinti Ripley honum aftur í skurð við Miccosukee Golf & Country Club en þar var enginn til að bjarga honum og Alejandro drukknaði.

Sagði upprunalega að honum hafi verið rænt

Að því er kemur fram í frétt Miami Herald um málið var morðið vel skipulagt en Ripley hélt því upprunalega fram að Alejandro hafi verið rænt af tveimur svörtum mönnum á fimmtudagskvöldinu. Lögregla framkvæmdi víðtæka leit að ræningjunum og Alejandro í framhaldinu.

Hún viðurkenndi þó síðar að hún hafi sjálf orðið honum að bana eftir að lögregla dró frásögn hennar í efa en hún hélt því fram að Alejandro væri nú „á leiðinni á betri stað.“ Hann fannst látinn á föstudagsmorgninum.

Ripley hefur nú verið ákærð fyrir morð og tilraun til morðs og er í haldi lögreglu.