Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur beðið umsjónarmenn fasteigna Háskóla Íslands að vera á varðbergi og henda öllum kynþáttaáróðri í ruslið.

Fréttablaðið greindi frá því í kvöld að nýnasistar hafi dreift bæklingum í póstkassa háskólanema og sett upp límmiða með merki nýnasistasamtakanna Norðurvígis.

Andri Ólafsson, aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að háskólinn væri að vinna hörðum höndum við að taka niður alla límmiða og að allur nasistaáróður væri fjarlægður jafnóðum. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt kemur upp, en samtökin hafa áður dreift bæklingum og límmiðum um háskólalóð.

Fréttablaðið ræddi við bandarískan háskólanema við HÍ sem sagði það á­hyggju­efni að háskólinn hefði ekki enn sent frá sér yfir­lýsingu varðandi verknaðinn þrátt fyrir að fjöldi nem­enda hafi sent á­bendingar til há­skólans. Andri staðfestir að háskólinn hafi fengið einn póst frá nemenda með ábendingu í dag.

Jón Atli sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu að fordæma áróðurinn.

„Jafnrétti er leiðarljós í starfi Háskóla Íslands og grundvöllur fjölbreytni og virðingar í háskólasamfélaginu. Þess vegna hryggir það mig að sjá að samtök þjóðernissinna hafa undanfarna daga dreift um háskólasvæðið hatursfullum og rasískum skilaboðum. Við munum ekki láta það líðast. Í Háskóla Íslands eiga allir að upplifa sig örugga og við eigum öll að hjálpast að við að tryggja að virðing sé borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins,“ segir í tilkynningu rektors.

„Ég hef beðið umsjónarmenn fasteigna Háskóla Íslands um að vera á varðbergi og henda öllum kynþáttaáróðri rakleitt þangað sem hann á heima, í ruslið.“