Dagur B. Eggerts­son var fyrir skemmstu kjörinn borgar­stjóri Reykja­víkur á fyrsta fundi ný­kjörinnar borgar­stjórnar sem hófst í ráð­húsinu klukkan 14:00. Fundurinn stendur enn yfir.

At­hygli vekur að Dagur fékk einu at­kvæði meira í stól borgar­stjóra en nemur borgar­full­trúum í meiri­hluta. Þrettán borgar­full­trúar skipa hann en Dagur fékk fjór­tán at­kvæði.

Fyrst var Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, odd­viti Við­reisnar, kjörin for­seti borgar­stjórnar með sex­tán at­kvæðum en sjö voru auð. Því fékk hún sömuleiðis fleiri atkvæði en sem nemur fjölda borgarfulltrúa í meirihluta. Hið sama gilti í at­kvæða­greiðslu um borgar­stjóra­stólinn en Dagur grínaðist með auða seðla.

Fjór­tán borgar­full­trúar kusu Dag í em­bættið en níu skiluðu auðum seðlum. Eins og fram hefur komið mun Einar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sóknar taka við em­bættinu af Degi eftir á­tján mánuði.

Einar Þorsteinsson og Hildur Björnsdóttir, oddviti Framsóknar og oddviti Sjálfstæðisflokks fylgdust með talningu atkvæða.
Fréttablaðið/Ernir

„For­seti og á­gæta borgar­stjórn, ég vil þakka það traust sem mér er sýnt af mikilli auð­mýkt. Ég mun reyna að rækja starf mitt fyrir auð­vitað hönd og í sam­vinnu við alla borgar­stjórn en líka fyrir hönd allra borgar­búa og þakka stuðninginn,“ sagði Dagur.

„Ég hélt um tíma að auður væri að hafa þetta, en þetta fór vel. Takk.“

Niðurstöður kosninga í ráð og nefndir voru síðan eftirfarandi:

  • Einar Þorsteinsson (B) – formaður borgarráðs
  • Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata – formaður umhverfis- og skipulagsráðs
  • Skúli Helgason (S) – formaður menninga- íþrótta- og tómstundaráðs
  • Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B) – formaður skóla- og frístundaráðs
  • Heiða Björg Hilmisdóttir (S) – formaður velferðaráðs

Kosningu í nýtt mannréttindaráð og nýtt stafrænt ráð var frestað til næsta borgarstjórnarfundar.